Listi Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki var birtur í 13 sinn í gær. Þar kom fram að 875 fyrirtæki, eða tvö prósent fyrirtækja landsins, teldust vera slík. Það eru átta færri en í fyrra.
Á meðal þeirra fyrirtækja sem eru ekki á listanum í ár eru Samherji hf., eitt stærsta fyrirtæki landsins. Það hafði verið á honum síðustu tíu árin á undan og var í fjórða sæti í flokki stórra framúrskarandi fyrirtækja í fyrra. Vera Samherja á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki vakti athygli, og var til umfjöllunar í fjölmiðlum, enda fyrirtækið til rannsóknar hjá yfirvöldum hérlendis og í Namibíu vegna meintra mútumála, peningaþvættis og skattasniðgöngu. Þá var einnig opinberað í fyrravor að innan Samherja hefði verið rekið áróðursstríð gegn blaðamönnum og fjölmiðlum sem fjallað höfðu um málefni fyrirtækisins, með vitund og vilja æðstu yfirmanna. Fyrirtækið baðst afsökunar á framferði sínu í kjölfarið.
Samherji Ísland, útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki að öllu leyti í eigu Samherjasamstæðunnar, sem verið hefur á lista Creditinfo síðastliðinn sjö ár, er heldur ekki á listanum í ár. Sömu sögu er að segja um Samherja fiskeldi, sem var á listanum í átta ár til 2019, og Útgerðarfélag Akureyringa, sem er að öllu leyti í eigu Samherja og var einnig á listanum frá 2014.
Creditinfo setur saman listann og setur ýmis skilyrði fyrir því. Í ár voru þau skilyrði þrengd. Fyrirtæki geta síðan greitt 99 þúsund krónur auk virðisaukaskatts fyrir viðurkenningarskjal og leyfi til að nota merki vottunarinnar í kynningarefni.
Init sem talið var að reynt hafi að fela raunverulegan hagnað
Annað fyrirtæki sem var á listanum í fyrra, en er þar ekki núna, er hugbúnaðarfyrirtækið Init ehf. Það var í 4. sæti í flokki lítilla framúrskarandi fyrirtækja. Fyrr á síðasta ári hafði fréttaskýringarþátturinn Kveikur sagt frá mörg hundruð milljóna króna viðskiptum Init, sem hafði árum saman haldið utan um tölvukerfi fyrir helstu lífeyrissjóði landsins, við starfsmenn og hluthafa félagsins. Fram kom í umfjöllun Kveiks að svo virtist sem eigendur Init hefðu reynt að fela raunverulegan hagnað sinn af vinnu við tölvukerfi lífeyrissjóðanna fyrir eigendum og notendum kerfisins.
Í úttekt sem Reiknistofa lífeyrissjóða (RL) lét endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young vinna vegna málsins kom fram að fyrirtækið hefði brotið á samningum sínum við RL og að ekki fengist séð að eðlilegur rekstrartilgangur hefði að öllu leyti legið að baki greiðslum frá Init til félaga í eigu hluthafa og starfsmanna. Daginn áður en listi Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki 2021 var birtur tilkynnti RL að lífeyrissjóðir ætluðu taka yfir rekstur á hugbúnaðarkerfinu úr höndum Init, vegna brota félagsins á samningi þess við RL.
Þurfa að svara spurningum um samfélagslega ábyrgð
Til að komast á lista Creditinfo þarf að uppfylla ýmis skilyrði fyrirtækisins. Fyrirtæki sem komast á listann geta síðan keypt vottun og samanburðarskýrslu af Creditinfo, sem kostar, líkt og áður sagði, 99.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Þegar Creditinfo metur hvort fyrirtæki teljist framúrskarandi er meðal annars horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma, og þegar litið sé til síðustu þriggja ára sé rekstrarhagnaður, ársniðurstaðan jákvæð, rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna og að eiginfjárhlutfall sé að minnsta kosti 20 prósent.
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, sem þá hafði nýlega verið ráðin framkvæmdastjóri Creditinfo, sagði i svari við fyrirspurn Kjarnans í nóvember í fyrra um þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja svo þau teljist framúrskarandi, að Creditinfo ynni að því að fjölga mælikvörðunum sem eru að baki vottuninni. „Eins er til skoðunar hvort Creditinfo áskilji sér rétt til að fjarlægja fyrirtæki tímabundið af listanum ef uppi eru sérstök álitamál um framgöngu þeirra eða ef þau sæta rannsókn vegna spillingarmála.“
Slíkar breytingar hafa verið gerðar. Í tilkynningu sem send var út vegna birtingu listans í gærkvöldi kom enda fram að nú væri erfiðara en nokkru sinni áður að komast á listann. Nú þurfa stærri fyrirtækin í fyrsta sinn að svara spurningum um samfélagslega ábyrgð til að vera gjaldgeng á listann.
Þá kemur fram á vef Creditinfo að fyrirtækið áskilji sér rétt til að fjarlægja fyrirtæki tímabundið af lista, svo sem vegna opinberra rannsókna sem geta haft stórfelld áhrif á fyrirtækið.
Eyrir Invest á toppnum
Á lista Creditinfo yfir þau stóru fyrirtæki landsins (þau sem eiga eignir sem metnar eru yfir einn milljarð króna) trónir fjárfestingarfélagið Eyrir Invest, stærsti eigandi Marel, á toppnum. Þar á eftir koma tvö fyrirtæki í opinberri eigu. Annars er þar um að ræða Landsvirkjun, sem er í eigu íslenska ríkisins, og hins vegar Félagsbústaðir, sem er í eigu Reykjavíkurborgar.
Marel, verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands, situr svo sjálft í fjórða sæti og Síldarvinnslan er, líkt og áður sagði, í því fimmta. Þar á eftir kemur annað skráð sjávarútvegsfyrirtæki, Brim.
Í flokki meðalstórra fyrirtækja, þeirra sem eiga eignir frá 200 til 1.000 milljóna króna, situr matvælaframleiðslufyrirtækið Marhólmar í fyrsta sæti, gleraugnaverslunin Optical Studio í öðru og ACRO verðbréf í því þriðja. Í flokki lítilla fyrirtækja, þeirra sem eiga eignir á frá 100 til 200 milljóna króna, situr Fit Food í fyrsta sæti, Heyrnartæki ehf. í öðru og Hlaðir ehf. í því þriðja.
Hér er hægt að fletta upp þeim fyrirtækjum sem eru á listanum.