Samherji hf. hagnaðist um tæpa 22 milljarða króna á árinu 2013. Það er aukning um 6,2 milljarða króna á milli ára. Hagnaður Samherja var því 1,8 milljarður króna á mánuði, eftir að búið er að gera ráð fyrir öllum kostnaði.
Rúmur þriðjungur hagnaðarins er tilkominn vegna sölu eigna og skiptir þar mestu sala dótturfélaga Samherja á fimm skipum og útgerð við strendur Afríku á um 7,7 milljarða króna fyrir tekjuskatt.
Alls greiddi Samherji 1,7 milljarða króna í tekjuskatt á Íslandi og um 2,7 milljarða króna í veiðileyfagjald. Þetta er fimmta árið í röð sem allar afkomueiningar samstæðunnar skila hagnaði.
Samsteypan velti 89,3 milljörðum króna á síðasta ári, sem er 440 milljónum krónum meira en á árinu 2012. Tæpur helmingur af veltu Samherja kemur frá dótturfélögum samstæðunnar erlendis.
Í frétt um afkomuna á heimasíðu Samherja kemur fram að fjárfestingar samstæðunnar á síðasta ári hefðu numið 5,1 milljarði króna.
Segir umhverfið hafa neikvæð áhrif og hamla starfsemi
Í fréttinni er einnig rætt við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja. Þar segir hann: „Sá árangur sem starfsfólk Samherja hefur enn á ný náð er ekki síður markverður fyrir það að á sama tíma hafa stjórnvöld haldið áfram aðgerðum sínum gegn félögum í samstæðunni. Þessar aðgerðir hafa óhjákvæmilega tekið mikla orku og tíma frá stjórnendum og starfsfólki sem gjarnan vildi sinna uppbyggilegri hlutum. Ég er ekki tilbúinn að sætta mig við að höfuðstöðvar alþjóðlegs sjávarútvegsfyrirtækis geti ekki verið á Íslandi en umhverfið hér í dag er farið að hafa neikvæð áhrif og jafnvel hamla okkar starfsemi.
Ég hef sagt það oft áður að sjávarútvegur er alþjóðleg atvinnugrein. Velgengnin byggist að stórum hluta á þekkingu og áræði starfsfólksins, hvort heldur er í veiðum, vinnslu eða markaðssetningu. Þegar samviskusamt og duglegt fólk með mikla þekkingu úr skóla lífsins leggst saman á árarnar er hægt að ná afbragðsárangri."
Aðaleigendur og stjórnendur Samherja eru Þorsteinn Már og Kristján Vilhelmsson, frændi hans.