Þýsk dótturfélög Samherja, Icefresh GmbH í Frankfurt og Cuxhavener Reederei GmbH í Cuxhaven, hafa eignast rúmlega 20% hlut í norska félaginu Nergaard AS, sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfélögum Noregs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja sem birt er á heimasíðu félagsins.
„Nergaard AS á sér langa sögu í norskum sjávarútvegi og er meginstarfsemi þess veiðar, vinnsla og sala sjávarafurða. Félagið rekur m.a. fimm togara, er með starfsstöðvar á sex stöðum í Norður-Noregi en höfuðstöðvar Nergaard eru í Tromsö. Velta Nergaard hefur verið nálægt 35 milljörðum króna á ári og hafa vinnslur félagsins á undanförnum árum tekið á móti nálægt 50.000 tonnum af bolfiski og um 100.000 tonnum af uppsjávarfiski. Afurðir félagsins eru m.a. frystur og ferskur botnfiskur, saltfiskur, skreið, fryst síld, loðna og makríll,“ segir í tilkynningunni.
Samherji hóf þáttöku í rekstri þýskra útgerða í Cuxhaven árið 1994. Félögin gera út togara til veiða í Norður Atlantshafi og hefur reksturinn gengið vel, að því er segir í tilkynningu. Framkvæmdastjóri þýsku útgerðanna er Haraldur Grétarsson.
Icefresh GmbH var stofnað í Cuxhaven árið 2004 og er tilgangur félagsins að vinna og markaðssetja ferskan fisk á Þýskalandsmarkaði. Félagið hefur vaxið hratt og staða þess er sterk á þýska markaðinum fyrir ferskar fiskafurðir. Árið 2012 flutti Icefresh alla sína starfsemi til Frankfurt. Á þessu ári er áætlað að velta félagsins verði um 10 milljarðar króna og að unnið verði úr 15.000 tonnum af hráefni. Vöxtur félagsins hefur verið eftirtektarverður og fjárfestingin í Nergård er rökrétt framhald þar sem yfir 80% af veltu félagsins stafar frá norskum fiski og fiski lönduðum í Noregi. Framkvæmdastjóri Icefresh GmbH er Sigmundur Andrésson.
Rekstur Samherja hefur aldrei gengið betur en undanfarin ár. Í fyrra hagnaðist félagið um 22 milljarða króna.