Síðustu daga hefur Kjarninn fjallað ítarlega um gögn sem sem sýna meðal annars tölvupóstsamskipti og samtöl milli einstaklinga í spjallforriti þar sem rætt er um hvernig varnarbarátta Samherja hefur þróast frá því að opinberun fjölmiðla á hinu svokallaða Namibíumáli – þar sem grunur er um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti – varð í nóvember 2019.
Gögnin sýna að margir einstaklingar innan Samherjasamstæðunnar koma beint að öllum viðbrögðum við þeim fréttaflutningi og öðrum sem fylgt hafa í kjölfarið.
Þar ber að nefna Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, útgerðarstjórann Kristján Vilhelmsson, Baldvin Þorsteinsson, forstjóra Samherja í Evrópu, son Þorsteins Más og einn helsta eigandi Samherja á Íslandi, Björgólf Jóhannsson, sem settist um tíma í forstjórastól Samherja eftir að Namibíumálið kom upp, Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðing Samherja til margra ára, og Óskar Magnússon, sem situr í stjórn Samherja og hefur verið náinn ráðgjafi Þorsteins Más árum saman.
Ráðgjafinn og einkaspæjarinn Jón Óttar Ólafsson leikur stórt hlutverk á bakvið tjöldin og það gerir Þorbjörn Þórðarson, lögmaður og ráðgjafi, einnig ásamt skipstjórarnum Páli Steingrímssyni.
Fyrirspurn í níu liðum
Í aðdraganda þess að Kjarninn hóf birtingu á umfjöllun sinni sem byggir á gögnunum var send ítarleg fyrirspurn til helstu stjórnenda Samherja. Þeirri fyrirspurn var beint til Þorsteins Más Baldvinssonar, Björgólfs Jóhannssonar og Eiríks Jóhannssonar, stjórnarformanns Samherja.
Í fyrirspurninni stóð:
- Af hverju er Samherji að setja fram greinar og samfélagsmiðlaummæli í nafni einstaklings þegar fyrir liggur að annar hópur á vegum fyrirtækisins semur greinarnar og ummælin?
- Í gögnunum kemur einnig fram að starfsmenn og ráðgjafar Samherja hafi safnað upplýsingum um blaðamenn, listamenn, stjórnmálamenn og aðra sem hópur innan fyrirtækisins telur sér óvinveitta. Það á til að mynda við um upplýsingar um bifreiðaeign rithöfundar, tengsl ýmissa blaðamanna sem starfa á mismunandi miðlum og fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við fólk sem starfar innan fjölmiðlafyrirtækja.
- Af hverju eru starfsmenn Samherja að safna slíkum upplýsingum um fólk sem tjáir sig um fyrirtækið, annað hvort vinnutengt eða með því að nýta tjáningarfrelsi sitt á samfélagsmiðlum, með þessum hætti?
- Hvernig vistar Samherji þessar upplýsingar? Eru þær t.d. vistaðar á miðlægan hátt þannig að margir geti nálgast þær?
- Í samtölum sem koma fram í gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum kemur fram að ráðgjafar og starfsmenn Samherja reyndu að hafa áhrif á niðurstöðu formannskjörs í stéttar-og fagfélagi blaðamanna sem fram fór í lok síðasta mánaðar. Í þeim samtölum var lögð áhersla á að það mætti alls ekki spyrjast út að Samherji eða ráðgjafar fyrirtækisins væru að beita sér fyrir því að niðurstaða kjörsins færi á ákveðinn veg. Af hverju eru launaðir ráðgjafar og starfsmenn Samherja að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttar- og fagfélagi sem enginn þeirra á aðild að og tengist starfsemi Samherja ekki á nokkurn hátt?
- Í gögnunum er að finna mikið magn upplýsinga um þann hóp sem vinnur að því að rétta hlut Samherja í því sem hluti hópsins skilgreinir sjálfur sem „stríð“. Er hægt að fá upplýsingar um hversu miklum fjármunum Samherji hefur kostað til vegna starfa þessa hóps frá því í nóvember 2019? Til frekari glöggvunar þá sýna gögnin að þeir sem vinna mestu vinnuna í hópnum vera Þorbjörn Þórðarson, ráðgjafi Samherja, Arna Bryndís McClure, yfirlögfræðingur Samherja, Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, og Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi Samherja. Auk þess virðast Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja og núverandi ráðgjafi fyrirtækisins, og Óskar Magnússon, stjórnarmaður í Samherja, leika lykilhlutverk í umræddu „stríði“.
- Í gögnunum er að finna upplýsingar um samskipti Samherja við færeyskan fjölmiðil þar sem rætt er um að grafa undan þeim fréttamönnum sem unnu nýlega sjónvarpsþætti sem fjölluðu um starfsemi Samherja í Færeyjum. Af hverju er Samherji að falast eftir því að afhenda fjölmiðli í Færeyjum gögn sem eiga að draga úr trúverðugleika annarra fréttamanna þar í landi?
- Samkvæmt gögnunum sagði Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi Samherja, frá því í byrjun febrúar í samtali við aðra innan fyrirtækisins að verið væri að skoða hvort Helgi Seljan, blaðamaður Kveiks, væri staddur í Namibíu. Hvernig fór sú „skoðun“ fram?
- Björgólfur Jóhannsson hefur verið kjörinn sem formaður hlítingarnefndar Samherja sem á að hafa yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja. Hvernig samræmist sú staða þeirri háttsemi sem hann virðist taka þátt í að skipuleggja sem fyrrverandi forstjóri og ráðgjafi?
Vilja ekki ljá umfjöllun vægi sem hún eigi ekki skilið
Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis á fimmtudag kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggir á hafi fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja. Páll hafi kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu fyrir fáeinum dögum þar sem málið bíði lögreglurannsóknar. „Hvorki Samherji hf. né fyrirsvarsmenn félagsins munu fjalla um inntak gagna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti. Með því væri verið að ljá umfjöllun vægi sem hún á ekki skilið. Fyrirspurnum yðar verður því ekki svarað.“
Í svari Arnars Þórs er þó tiltekið að rétt sé að fram komi að „starfsfólk Samherja hf. hefur fullar heimildir til að ráða ráðum sínum um sameiginleg málefni sín og félagsins og ekkert óeðlilegt við það, sér í lagi þegar þeir og félagið sæta slíkum árásum sem á þeim hafa dunið að undanförnu af hálfu fjölmiðla.“
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið og fjöldi fordæma eru fyrir því hérlendis sem erlendis að fjölmiðlar birti gögn sem eiga erindi við almenning án þess að hafa upplýsingar um hvernig þeirra var aflað. Það var skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti gagnanna ætti sterkt erindi og því eru almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.