Samkeppniseftirlitið hefur fallsit á kaup Ardian á Mílu. Sátt samrunaaðila var undirrituð í dag. Í henni felst að samrunaaðilar hafa gert „verulegar breytingar“ á heildsölusamningi Símans og Mílu. Einnig er Míla skuldbundin til að lúta tilteknum skilyrðum í starfsemi sinni. Samhliða hefur Síminn undirritað yfirlýsingu þar sem fyrirtækið ábyrgist tiltekna þætti í starfsemi sinni. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að með þessum skilyrðum sé „samkeppnishindrunum rutt úr vegi“ og „frjór jarðvegur skapaður fyrir öfluga samkeppni á fjarskiptamarkaði – viðskiptavinum og neytendum til hagsbóta.“
Haft er eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, í tilkynningunni að Samkeppni í uppbyggingu og rekstri innviða hér á landi hafi skilað Íslandi „í fremstu röð“ á þessu sviði. „Á þeim umbreytingatímum sem framundan eru mun það hafa úrslitaþýðingu fyrir samkeppnishæfni Íslands að stjórnvöld og atvinnulíf hlúi að samkeppni á þessu sviði.
Innkoma sjálfstæðs innviðafjárfestis inn á íslenskan markað og rof á eignatengslum Símans og Mílu er til þess fallið að treysta samkeppni ef vel er að málum staðið. Til þess að svo megi verða þurfa forsendur og skilmálar viðskiptanna að styðja við samkeppni. Sáttinni sem hér er kynnt er ætlað að tryggja það.“
Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar samruna sem felst í kaupum Ardian France á Mílu af Símanum. Míla rekur innviði fjarskipta á öllu Íslandi og er stærsti og mikilvægasti heildsali á fjarskiptaþjónustu hér á landi. Síminn er öflugasti smásali á fjarskiptaþjónustu og er því stærsti kaupandinn á fjarskiptaþjónustu í heildsölu. Miklu skiptir því fyrir neytendur og atvinnulífið að sala Símans á Mílu sé framkvæmd með þeim hætti að hún raski ekki samkeppni á þeim mikilvægu mörkuðum sem um er að tefla.
Samkeppniseftirlitið telur að breytt eignarhald á Mílu og rof á eignatengslum við Símann sé jákvætt skref fyrir samkeppni á fjarskiptamörkuðum. Samhliða sölunni á Mílu var hins vegar gerður langtíma heildsölusamningur milli Símans og Mílu sem fól í sér samkeppnishindranir, sem engin fordæmi eru fyrir. Þá voru fjarskiptakerfi og heildsölustarfsemi flutt frá Símanum til Mílu í aðdraganda sölunnar sem styrktu stöðu Mílu. Kölluðu þessi atriði á aðgerðir af hálfu Samkeppniseftirlitsins.
Breytingar á heildsölusamningi Símans og Mílu
- Einkarétti Mílu til að veita Símanum heildsöluþjónustu settar skorður: Upphaflegur samningur fól í sér alhliða einkarétt Mílu til að veita Símanum alla þá heildsöluþjónustu sem Síminn þarf á að halda. Breytingar á samningnum gera Símanum kleift að leita til annarra aðila með allt að 20% af heildsöluþjónustu á sviðum þar sem Míla hefur hvað sterkasta stöðu. Með því gefst öðrum innviðafyrirtækjum tækifæri til að bjóða Símanum þjónustu, samhliða því að samkeppnislegt aðhald Símans gagnvart Mílu eykst.
- Felld eru út ákvæði sem tryggja Mílu rétt til að fá upplýsingar um og jafna tilboð annarra birgja til Símans: Ákvæði af þessu tagi eru í samkeppnisrétti kölluð „ensk ákvæði“ og hefðu tryggt Mílu yfirburðastöðu gagnvart keppinautum sínum í samningum um heildsöluþjónustu við Símann, til viðbótar við einkarétt sem getið var um hér að framan. Niðurfelling þeirra skapar aukin tækifæri til samkeppni.
- Samstarf milli Mílu og Símans minnkað að verulegu leyti: Í upphaflegum samningi var kveðið á um náið langtímasamstarf Mílu og Ardian um viðskiptalegar ákvarðanir, sem og fjárfestingar og uppbyggingu. Þessar skuldbindingar um samstarf hafa verið fjarlægðar að verulegu leyti. Jafnar það m.a. stöðu keppinauta á fjarskiptamarkaði gagnvart innviðaþjónustu Mílu.
- Samkeppnisbönn Símans og Mílu felld út að verulegu leyti: Upphaflegur samningur skuldbatt Símann til að keppa ekki við Mílu um heildsöluþjónustu og Mílu til þess að keppa ekki við Símann í smásölu, til næstu tuttugu ára. Bann við samkeppni Mílu við Símann hefur nú verið fellt niður og bann við samkeppni Símans við Mílu takmarkast við þrjú ár. Skapa þessar breytingar aukið samkeppnislegt aðhald, bæði í smásölu og innviðastarfsemi.
- Stuðlað að því að tækniþróun og hagræðing skili sér í lægra verði til viðskiptavina: Í upphaflegum samningi er samið um verð á þjónustu Mílu við Símann til langs tíma og verð bundið vísitölu neysluverðs. Aðrar breytingar á samningnum í kjölfar sáttar draga úr hættunni á samkeppnishindrunum vegna þessa. Auk þess hafa aðilar skuldbundið sig til að tryggja að tækniþróun og hagræðing skili sér í lægra verði til viðskiptavina.
- Gildistími styttur um fjórðung: Samningstími hefur verið styttur úr tuttugu árum í fimmtán ár, auk þess sem framlengingarákvæðum hefur verið breytt. Við mat á samningstíma horfði Samkeppniseftirlitið til annarra jákvæðra breytinga á samningnum sem hér er lýst, auk þess sem horft er m.a. til líftíma eigna.
Starfsemi Mílu sett skilyrði
- Bann við samkeppnishamlandi vöndlun og samtvinnun þjónustuþátta: Við undirbúning að sölunni á Mílu voru mikilvæg kerfi og þjónusta flutt frá Símanum til Mílu. Með því breikkaði þjónustu- og vöruframboð Mílu verulega og staða félagsins styrktist gagnvart keppinautum. Mikilvægt er því að vinna gegn því að félagið geti nýtt sér þessa stöðu til að útiloka samkeppni frá keppinautum með einfaldara þjónustu- eða vöruframboð. Vinna skilyrði sáttarinnar gegn þessu.
- Jafn aðgangur að kerfum og þjónustu Mílu tryggður: Mílu verður skylt að gæta jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis gagnvart fjarskiptafyrirtækjum sem óska eftir tengingu við innviði Mílu í kaupum á heildsöluþjónustu. Í þessu felst einnig bann við hvers konar mismunun viðskiptavina. Þannig er aðgangur allra fjarskiptafyrirtækja að mikilvægum kerfum og þjónustu Mílu tryggður og unnið gegn því að stærsta smásölufyrirtækið, Síminn, njóti forgangs í viðskiptum við Mílu.
- Upplýsingamiðlun og skylda vegna breytinga á kerfum og þjónustu Mílu: Með sömu markmið að leiðarljósi er Míla skuldbundin til að upplýsa alla viðskiptavini um nýjar eða fyrirhugaðar vörur eða þjónustu með sama hætti, svo allir sitji við sama borð.
- Aðrar aðgerðir til að stuðla að viðskiptafrelsi Símans
- Með framangreindum breytingum á heildsölusamningi Símans og Mílu er Símanum tryggt aukið frelsi til að eiga viðskipti við keppinauta Mílu, en það er til þess fallið að örva samkeppni. Eftir sem áður eru sterk viðskiptatengsl milli Símans og Mílu, m.a. vegna flutnings á kerfum og þjónustu frá Símanum til Mílu í aðdraganda sölunnar.
- Með þetta í huga hefur Míla skuldbundið sig til að grípa ekki til neinna aðgerða sem takmarka frelsi Símans að þessu leyti. Einnig hefur Síminn undirritað yfirlýsingu þar sem hann ábyrgist m.a. að fyrirtækið muni búa á hverjum tíma yfir getu til að kaupa fjarskiptaþjónustu frá keppinautum Mílu.
Virkt eftirlit
Til viðbótar hefðbundnu eftirliti Samkeppniseftirlitsins verður á grundvelli sáttarinnar skipaður óháður eftirlitsaðili sem ætlað er að hafa viðvarandi og virkt eftirlit með því að öllum skilyrðum sáttarinnar sé fylgt eftir.
Samkeppnisleg áhrif og aðrar breytingar á markaðnum
Í tilkynningu segir að það sé mat Samkeppniseftirlitsins að framangreindar breytingar á heildsölusamningi og skilyrði sem hvíla á samrunaaðilum eyði þeim samkeppnishömlum sem salan hefði að öðrum kosti skapað. „Án þessara breytinga og skilyrða hefði markaðsráðandi staða Mílu á tilteknum sviðum styrkst verulega og skilmálar sölunnar unnið gegn samkeppnislegu aðhaldi Símans og annarra fjarskiptafyrirtækja. Hefðu þessar samkeppnishömlur að óbreyttu gert að engu samkeppnislegan ávinning af því að slíta á eignatengsl Símans og Mílu. “
Samhliða rannsókn málsins hafa samkeppnishorfur og líklegt framtíðarumhverfi fjarskipta hérlendis breyst talsvert, segir ennfremur í tilkynningunni. Þannig hafa keppinautar Mílu í innviða- og heildsölustarfsemi samið um og/eða tilkynnt um uppbyggingu og eflingu gagnaflutnings hérlendis, sér í lagi á stofnlínumarkaði. Við mat á samkeppnislegum áhrifum af kaupum Ardian á Mílu er höfð hliðsjón af fyrirsjáanlegum breytingum af þessu tagi.
Nánari forsendur þessarar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í málinu verða birtar á næstunni.
Sátt Samkeppniseftirlitsins við Ardian og Mílu er aðgengileg hér.