Til stendur að VR, Landssamband íslenskra verzlunarmanna og samflot stéttarfélaga iðnarðar- og tæknifólks undirriti nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins kl. 13 í dag, í kjölfar þess að setið var á fundum fram undir morgun á skrifstofum ríkissáttasemjara í Borgartúni.
Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarríkissáttasemjari segir í samtali við Kjarnann að samningar hafi náðst undir morgun, eftir um 20 klukkustunda langan fund.
Í kjölfarið hafi viðræðunefndirnar sem voru í húsi á þeim tímapunkti svo þurft að bera samninginn undir alla sem sátu við borðið og fá umboð samninganefnda til undirritunar.
Í því ljósi var ákveðið að bíða með undirritun samninganna þar til núna eftir hádegið, til þess að vera ekki að ræsa fólk sem hafði haldið heim til hvíldar upp að nýju snemma í morgun, segir Elísabet.
Samningarnir sem verða undirritaðir kl. 13 í dag snerta kjör nærri 60 þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði.
Elísabet segist ekkert geta tjáð sig um efni þeirra vegna trúnaðar og því getur hún ekki heldur staðfest að um sé að ræða skammtímasamninga af svipuðum meiði og Starfsgreinasambandið gerði við Samtök atvinnulífsins fyrr í mánuðinum.
En svör við þeim spurningum fást kl. 13, þegar fjölmiðlar verða boðnir velkomnir í Karphúsið í Borgartúni til þess að vera viðstaddir undirritun kjarasamninganna.
Ríkisstjórnin með yfirlýsingu í dag
Fleiri tíðinda er að vænta í dag. Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna þriggja hafa boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum í dag kl. 14:30, en þar stendur til að kynna yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.