Viðræður Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um gerð kjarasamninga eru á lokametrunum. Umræddur samningur á að gilda út janúar 2024 og yrði því til skemmri tíma en vant er þegar kjarasamningar eru gerðir.
Heimildir Kjarnans herma að unnið sé að því öllum árum að fá VR, stærsta stéttarfélag landsins, að borðinu en það sleit samningum við Samtök atvinnulífsins í síðustu viku. Þrátt fyrir þau slit mætti Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og samninganefnd félagsins á fund hjá ríkissáttasemjara í gær ásamt fulltrúum Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Starfsgreinasambandsins. Sá fundur stóð í þrettán tíma, og lengur en til stóð upphaflega.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, svöruðu ekki símtölum blaðamanna Kjarnans við vinnslu fréttarinnar.
Fjögur prósent hækkun með 40 þúsund króna þaki
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur Starfsgreinasambandið samþykkt í öllum meginatriðum að semja um fjögurra prósenta launahækkun í samningum sem eiga að gilda til loka janúar 2024. Hækkunin á að vera með 20 þúsund króna gólfi, þannig að enginn fari undir þá upphæð í hækkun, og 40 þúsund króna þaki, þannig að enginn fari yfir þá upphæð. Til viðbótar koma starfsaldursþrepahækkanir sem geta í mesta lagi verið 12 þúsund krónur á mánuði en eru að meðaltali um átta þúsund krónur á mánuði.
Efling, sem lagt hefur fram tilboð til Samtaka atvinnulífsins um 56.700 króna flata krónutöluhækkun á öll laun og 15.000 króna framfærsluuppbót til viðbótar fyrir utan útgreiðslu hagvaxtarauka fyrir samning út janúar 2023, er ekki hluti af þessum viðræðum.
Í fréttatilkynningu sem Efling sendi frá sér í gærmorgun sagði að samninganefnd félagsins teldi önnur stéttarfélög hafa gert mistök með því að fallast á aðferðafræði prósentuhækkana í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. „Tillögur hafa verið til umræðu þar sem gert er ráð fyrir tvöfalt meiri hækkunum til hátekjuhópa en til láglaunafólks.“
Niðurlægður þrisvar á sólarhring
Ragnar Þór sagði í samtali við Kjarnann síðastliðinn föstudag, í kjölfar þess að viðræðum var slitið, að launafólk hefði „verið niðurlægt þrisvar á rúmum sólarhring. Fyrst af seðlabankastjóra, svo af fjármálaráðherra og loks af Samtökum atvinnulífsins.“
Þar vísaði hann í að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti á miðvikudag, og orð Ásgeirs Jónssonar um að ástæður þeirrar hækkunar væri eyðsla heimilanna, hefði sent kjaraviðræður á mjög viðkvæman stað. Í kjölfarið hefði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðað aðila vinnumarkaðarins á fund til að reyna að draga úr spennunni sem hafði myndast. „Fjármálaráðherra kemur svo nánast strax í kjölfarið með yfirlýsingu á Peningamálafundi Viðskiptaráðs þar sem hann tekur nánast undir hvert orð seðlabankastjóra og segir að við þurfum að vakna. Hér sé vandamálið fyrst og fremst kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Þegar tilboð Samtaka atvinnulífsins um skammtímasamning bættist við var alveg ljóst að við gætum ekki dvalið við þetta lengur. Ég var með umboð til að slíta viðræðum og nýtt það umboð. Ég fundaði svo með samninganefndinni í morgun og þar er algjör einhugur um þessa ákvörðun. Hún er tekin af yfirvegun og upplýstu mati á stöðunni í hagkerfinu.“
Kjarninn hefur heimildir fyrir því að að Samtök atvinnulífsins hafi boðið VR og Starfsgreinasambandinu að lágmarki 17 þúsund krónur ofan á launataxta og að hámarki 30 þúsund krónur í launahækkanir í samningi sem átti að gilda í 14 mánuði, eða út janúar 2024. Matið fyrir helgi var að kostnaðarhækkanir heimila landsins vegna aukinnar greiðslubyrði lána, hækkana á verði á vöru, þjónustu og gjöldum vegna verðbólgu, sem nú er 9,3 prósent, og hækkana sé langt umfram þær tölur.