„Sú samþjöppun á eignarhaldi sem hefur átt sér stað í fiskeldi á sér vart hliðstæðu hér á landi.“
Þannig kemst Halldór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri tveggja fiskeldisfyrirtækja, Hábrúnar hf. og ÍS 47 ehf. að orði í umsögn sem hann gefur við þingsályktunartillögu sjö þingmanna Framsóknarflokksins um að matvælaráðherra skipi starfshóp til að koma með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun og eignarhald á laxeldisleyfum og til að skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.
Halldór bendir í umsögn sinni á að í dag séu 95 prósent framleiðsluheimilda samkvæmt útgefnum rekstrarleyfum til sjókvíaeldis í höndunum á tveimur norskum fyrirtækjasamstæðum. Önnur þeirra, Salmar ASA, á Arnarlax sem stundar eldi í fjörðum Vestfjarða, og hin, Ice Fish Farm, á nýsameinaða starfsemi Fiskeldis Austfjarða og Laxa sem elur fisk í fjörðum Austfjarða.
„Það er afar óheppilegt, eins og staðan er núna, þar sem um er að ræða tvo allsráðandi aðila sitthvoru megin á Íslandi og eru í yfirburðastöðu, t.d. gagnvart ríki og sveitarfélögum, íslenskum frumkvöðlafélögum í fiskeldi, birgjum og starfsmönnum,“ skrifar Halldór.
Sem dæmi um þessa yfirburðastöðu megi nefna að norsku stórfyrirtækin hafi „ekki hikað við það hingað til að harðneita sveitarfélögum greiðslum á aflagjöldum og sveitarfélög hafa í framhaldinu neyðst til að leita til dómstóla með innheimtu á eðlilegri gjaldtöku fiskeldis“. Að sama skapi megi spyrja þeirrar spurningar hver sé raunverulegur arður og verðmætasköpun sem verður eftir til hagsbótar íslensku samfélagi með núverandi eignarhaldi og fyrirkomulagi.
Halldór rifjar í umsögn sinni upp að á vorþingi árið 2019 hafi verið samþykkt endurskoðuð lög um fiskeldi. „Yfirlýst markmið laganna var að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldis, en áhrifin voru hins vegar þveröfug þar sem staða norskra stórfyrirtækja batnaði verulega á kostnað íslenskra frumkvöðlafélaga.“
Lagabreytingarnar hafi leitt af sér verulega óvissu um leyfisveitingar, stuðlað að frekari samþjöppun erlends eignarhalds í greininni og óréttmætri mismunun milli aðila sem fyrir lagasetninguna voru í sambærilegri stöðu.
„Áríðandi er að Alþingi setji á takmarkanir gegn samþjöppun eldisheimilda í erlendri eigu,“ skrifar Halldór og brýnt að fullt tillit sé tekið til lítilla íslenskra frumkvöðlafélaga „sem hafa orðið undir í baráttunni við norsk stórfyrirtæki og hafa auk þess orðið fyrir barðinu á vanhugsuðum lagasetningum í fiskeldi sem hafa stuðlað að enn frekari samþjöppun eldisleyfa á liðnum árum“.
„Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur orðið, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögu þingmanna Framsóknarflokksins. Bent er á að lög um fiskeldi setji ekki skorður við framsali á rekstrarleyfum í laxeldi en framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfum sé þó háð samþykki Matvælastofnunar. „Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi í sjó og á landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir.“
Horft til Færeyja
Flutningsmenn benda jafnframt á að í fiskeldislögum í Færeyjum sé að finna ákvæði sem banna að lögaðili eignist meira en helming útgefinna laxeldisleyfa. Þar er einnig að finna ákvæði um að enginn lögaðili, sem er ekki búsettur í Færeyjum, geti átt meira en 20% af atkvæðisbærum hlutum í fyrirtækjum sem hafa laxeldisleyfi. Rætt er um það í Noregi að leiða sambærileg ákvæði í lög.
„Laxeldisfyrirtæki á Íslandi eru í meirihlutaeigu útlendinga og útlit fyrir verulega samþjöppun á því eignarhaldi,“ segir í greinargerðinni. Í íslenskum lögum sé ekki að finna takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila í fiskeldi. „Flutningsmenn telja brýnt að athugað verði hvort takmarka beri slíkt eignarhald.“
Flutningsmönnum þykir ennfremur áríðandi að tryggt verði með lagasetningu að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra aðila, að fjölbreytni ríki í greininni og að eignarhald verði staðbundið.
Auka hagkvæmni
Í umsögn Arnarlax, stærsta fiskeldisfyrirtækis landsins, segir hins vegar að það sé vel þekkt staðreynd, m.a. frá uppbyggingu eldis í Færeyjum og í Chile að fjöldi fyrirtækja á sama svæði geti haft mjög neikvæð áhrif á greinina m.a. vegna sýkinga, sníkjudýra og fleiri þátta. „Það er því afar eðlilegt að greinin leiti í þá átt að fækka eldisaðilum til að m.a. lágmarka líffræðilega áhættu og auka hagkvæmni.“
Fimm fyrirtæki eru í dag með leyfi til laxeldis í sjó við Ísland. „Ógjörningur er að geta sér til um hver staðan verður í þessari ungu grein að 10 árum liðnum. Enn eru þó svæði svo sem Skjálfandi, Eyjafjörður og Jökulfirðir þar sem yfirvöld gætu boðið upp leyfi til sjókvíaeldis.“
Arnarlax ehf. er að fullu í eigu Icelandic Salmon AS. Stærsti hluthafinn er norska félagið Salmar ASA sem aftur er í eigu nokkur þúsund hluthafa. Fjöldi íslenskra fjárfesta eiga einnig hlut, segir í umsögn Arnarlax, m.a. Gildi lífeyrissjóður.
Laxeldið er afar fjármagnsfrekur iðnaður og hafa vel á þriðja tug milljarða runnið til uppbyggingar þess í formi áhættufjármagns síðustu árum. „Réttmætar væntingar eigenda standa til þess að félögin fá á vaxa og dafna eftir því sem árangur næst.“
Til þess að takmarka samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum, þyrfti að setja frekari skorður á atvinnuréttindi tiltekinna fyrirtækja til dæmis með því að banna þeim að sækja um ný leyfi eða auka eldismagn eða skerða möguleika á framsali gildandi leyfa, segir fyrirtækið í umsögninni. „Að mati Arnarlax er óráðlegt að grípa til slíkra takmarkana með valdboði. Þar að auki leikur verulegur vafi á hvort slík takmörkun samræmist grundvallarreglum um atvinnufrelsi og jafnræði eða skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.“
Þótt Matvælastofnun sem og Umhverfisstofnun þurfi að leggja blessun sína yfir framsal starfs- og rekstrarleyfa í fiskeldi og þannig nú þegar komið í veg fyrir skilyrðislaust framsal laxeldisleyfa „er sá möguleiki þó vissulega fyrir hendi að leyfin safnist á fáar hendur en stjórnvöldum er þó skylt að gæta þess að leyfin færist ekki á hendur aðila sem uppfylla ekki skilyrði laga og reglna“.
Þá er það álit Arnarlax að krafa um dreifðari eignaraðild myndi „ólíklega hafa áhrif á staðsetningu eldisstöðva hér á landi, enda eru þær eingöngu starfræktar þar sem réttar aðstæður eru fyrir hendi og horfir þar bæði til náttúrulegra og samfélagslegra þátta. Þar að auki hefur löggjafinn búið svo um hnútana að eingöngu er heimilt að starfrækja sjókvíaeldi í tilteknum fjörðum og flóum við Íslandsstrendur. Ekki er því hægt að bera fiskeldið saman við hefðbundinn sjávarútveg í þessu tilliti. Takmörkun á samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum verður því ekki rökstudd með vísan til byggðasjónarmiða.“
Telur Arnarlax „enga þörf“ á því að Alþingi feli matvælaráðherra að skipa starfshóp um málið líkt og lagt er til með þingsályktuninni.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga telur hins vegar mikilvægt að tekið verði til skoðunar staða og þróun í eignarhaldi fiskeldisfyrirtækja með stofnun starfshóps. Leggur stjórn sambandsins áherslu á að við skipan starfshópsins verði tryggð aðild fulltrúa fiskeldissveitarfélaga.