Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag tillögu um að hámarkshraði á langflestum borgargötum verði lækkaður í 40 eða 30 kílómetra hraða.
Enginn akvegur á forræði borgaryfirvalda en ekki Vegagerðar, verður lengur með yfir 50 kílómetra hámarkshraða og engin borgargata vestan Elliðaáa verður með yfir 40 kílómetra hámarkshraða, samkvæmt þessari nýju hámarkshraðaáætlun borgarinnar.
Formaður ráðsins og borgarfulltrúi Pírata, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, sagði frá þessari samþykkt ráðsins á Twitter í dag. Tillagan færist nú áfram í borgarkerfinu og fer fyrir borgarráð og svo borgarstjórn í framhaldinu.
Samkvæmt skýringarmyndum sem hún birtir þar felur tillagan í sér að hámarkshraði á fjölmörgum götum, til dæmis Suðurlandsbraut, Bústaðavegi, Snorrabraut, Lönguhlíð, Grensásvegi og svo mætti áfram lengi telja, verði lækkaður úr 60 eða 50 km/klst niður í 40 km/klst.
Sjá má samanburð á núverandi stöðu og því sem fellst í tillögunni á myndunum hér að neðan:
400 ný „30 km hlið“ og 700 yfirborðsmerkingar
„Það var stórkostlegt átak að ná Hringbrautinni niður í 40 km. Í dag munu miklu fleiri íbúar í öllum hverfum borgarinnar fá að njóta þess sama,“ segir Sigurborg Ósk á Twitter.
Hún segir að til þess að fylgja nýja hraðaplaninu eftir verði settir upp yfir 400 ný „30 km hlið“ upp á götum borgarinnar og 700 nýjar yfirborðsmerkingar, með nýjum hámarkshraða gatna. Götur verði einnig þrengdar og gróðri bætt í göturými, auk þess sem hjólastígar verði lagðir samsíða götu.
„Lægri hraði = færri slys. Reykjavíkurborg á ekki að vera bílaborg heldur borg á forsendum fólksins,“ skrifar Sigurborg Ósk.
Í dag var 100.fundur Skipulags- og samgönguráðs. Í dag samþykktum við glænýja hámarkshraðaáætlun fyrir allar borgargötur.
— Sigurborg Ósk Haraldsdóttir (@SigurborgOsk) April 14, 2021
Það eru allar götur sem eru í eigu borgarinnar en ekki Faxaflóahafna eða Vegagerðarinnar. pic.twitter.com/ROZpmXwoVb
Markmiðið er að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar
Nánar er fjallað um nýja hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur í tilkynningu á vef borgarinnar í dag. Þar segir að hún byggi á Umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023 sem samþykkt var af skipulags- og samgönguráði og borgarráði síðasta sumar. Tillagan hafi verið kynnt sérstaklega fyrir fulltrúum Strætó og fulltrúum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fengu hana einnig til umsagnar. Íbúaráð borgarinnar fengu einnig senda áætlun viðkomandi borgarhluta til umsagnar. Hægt er að kynna sér umsagnir og svör við þeim hér.
„Markmið hámarkshraðaáætlunarinnar er að stuðla að bættu umferðaröryggi í samræmi við áherslur umferðaröryggisáætlunar borgarinnar. Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Það er því ekki réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir aðra hagsmuni samfélagsins, eins og til dæmis minni tafir. Sé ætlunin að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni þar sem ólíkir ferðamátar mætast verður blöndun ólíkra ferðamáta að vera á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda. Eitt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða við þær aðstæður,“ segir í tilkynningunni á vef borgarinnar.