Þingmenn í neðri deild breska þingsins samþykktu í dag lagafrumvarp sem heimilar vísindamönnum að búa til fósturvísa úr erfðaefni þriggja einstaklinga. 382 þingmenn greiddu atkvæði með málinu en 128 voru mótfallnir, samkvæmt frétt BBC.
Lávarðadeild breska þingsins þarf nú einnig að greiða atkvæði um málið, en ef það verður samþykkt verður um tímamót að ræða í læknisfræði. Þá verður Bretland fyrsta ríkið til að framkvæma tæknifrjóvgun af þessu tagi. Samkvæmt breskum fjölmiðlum er talið líklegt að lávarðadeildin samþykki frumvarpið og þá gæti fyrsta barnið sem fæðist með erfðaefni þriggja einstaklinga fæðst í heiminn á næsta ári.
Alison Murdoch, yfirmaður Newcastle Fertility Centre at Life sem er frumkvöðull þessarar tækni, sagði við fjölmiðla í dag að samþykkt þingsins væru góðar fréttir fyrir framsækna læknisfræði. Andstæðingar tillögunnar ætla að halda áfram að berjast gegn því að tæknin verði leyfð, vegna þess að hún veki of margar siðferðis- og öryggisspurningar.
Tæknin er breytt útgáfa af tæknifrjóvgun, þar sem erfðaefni tveggja foreldra eru notuð en jafnframt hvatberar (e. mitochondria) úr annarri konu. Börn sem myndu fæðast með þessum hætti hefðu því 0,1 prósent erfðaefni úr þeirri konu. Ætlunin er að koma í veg fyrir að ólæknandi erfðasjúkdómar berist frá móður til barns.
Sjáðu skýringarmyndir á vef BBC.
Talið er að erfðasjúkdómar sem berast með hvatberum hafi áhrif á um 100 börn í Bretlandi á ári. Í 10 tilvikum valdi sjúkdómarnir mjög alvarlegum sjúkdómum eins og lifrarbilum, vöðvarýrnun, blindu og heilaskaða, samkvæmt frétt Guardian.
Málið hefur vakið gríðarmikla athygli í Bretlandi og víðar. Meðal þess sem kom fram í þinginu og víðar í dag voru áhyggjur af því að aðferðin væri ekki örugg og því hvort hún væri upphafið að víðtækum breytingum. Þingkona Íhaldsflokksins, Fiona Bruce, sagði meðal annars að það væri einfaldlega ekki hægt að spá fyrir um afleiðingarnar af þessu. „En eitt er víst, þegar búið er að gera þessa breytingu ... þá verður ekki aftur snúið.“ Í sama streng tók David King hjá hópnum Human Genetics Alert, við BBC í dag. „Þegar búið er að fara yfir siðferðislegu línuna, er mjög erfitt að taka ekki næsta skref í því að hanna börn.“
Þingmenn kusu frjálst í málinu en ekki samkvæmt flokkslínum. Forvígismenn bæði íhaldsmanna og Verkamannaflokksins sögðu þó að þeir litu á málið sem mikilvægt vísindalegt skref en alls ekki genabreytingar.