Samtök atvinnulífsins segja, í glærukynningu sem fulltrúar hagsmunasamtakanna kynntu fyrir fjárlaganefnd í morgun, að sameining Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og Skipulagsstofnunar myndi „ná fram bættu samstarfi og aukinni skilvirkni“. Styðjast mætti við norrænar fyrirmyndir í þessum efnum.
„Sameining HMS og Skipulagsstofnunar væri í takti við þróun málaflokksins nálægum löndum. Þar hafa öll málefni byggingar- og mannvirkjagerðar, frá skipulagi til uppbyggingar, verið sett undir sama hatt innan stjórnsýslunnar til að efla málaflokkinn. Í Svíþjóð falla húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál undir eina stofnun, Boverket. Í Danmörku hafa öll þessi málefni verið sameinuð undir nýja stofnun, Bolig- og planstyrelse,“ segja SA í þessari glærukynningu sinni til þingnefndarinnar, þar sem farið er yfir er yfir tillögur samtakanna að lausnum við íbúðaskorti.
Stjórnvöld hafi aðallega ýtt undir eftirspurn
Í glærukynningunni segir einnig að aðgerðir stjórnvalda á húsnæðismarkaði, eins og sérstök úttekt séreignarsparnaðar vegna COVID-19, Fyrsta fasteign og hlutdeildarlán, hafi fyrst og fremst ýtt undir eftirspurn.
Rót vandans sé hins vegar framboðsskortur á fasteignamarkaði, sem verði leystur með því að auka framboð, á meðan að eftirspurnarhvetjandi aðgerðir auki á vandann. SA segja að byggja þurfi meira, hraðar og á hagkvæmari hátt svo það dragi úr hækkun húsnæðisverðs og jafnvægi skapist á markaðnum. Talið sé að byggja þurfi 27 þúsund íbúðir á landinu fram til ársins 2030.
Útvistun byggingaeftirlits og einföldun regluverks
Tillögurnar sem SA leggja fram til fjárlaganefndar í húsnæðismálum snúa margar að einföldun regluverksins sem er utan um byggingarstarfsemi hérlendis. Samtökin leggja meðal annars til að lögbundið ferli við breytingar á deiliskipulagi verði stytt og framkvæmdin straumlínulöguð. Þá verði skilvirkni aukin í skilum og yfirferð á hönnunargögnum og tryggja að samræmi milli byggingarfulltrúaembætta sé til staðar.
Einnig leggja samtökin til að minna eftirlit verði með minni byggingarverkefnum en þeim sem eru stærri, en ekki jafnstrangar eftirlitskröfur til allra nýbygginga eins og er í dag. Einnig leggja SA til að byggingareftirliti, sem er nú í höndum sveitarfélaga, verði hægt að útvista til fyrirtækja sem sérhæfi sig í því, líkt og hægt sé að gera í Noregi og Danmörku.
Kerfisbreytinga þörf ef þétta eigi byggðina
Þá segja SA að tryggja verði að lóðaskortur hamli ekki íbúðauppbyggingu. Vísa samtökin til könnunar á meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins og þess að 80 prósent þeirra telji skort á lóðaframboði koma í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og að hagkvæmt húsnæði verði ekki byggt á þéttingarreitum við óbreytt kerfi.
„Ef byggja á hagkvæmt húsnæði á þéttingarreitum þurfa mikilvægar kerfisbreytingar að eiga sér stað sem eru til þess fallnar að draga úr byggingarkostnaði,“ segir í glærukynningunni frá Samtökum atvinnulífsins.