Pegida, „samtök fólks gegn islamvæðingu Evrópu“, hafa verið stofnuð á Íslandi. Facebook-síða hefur verið stofnuð og tæplega 270 manns hafa látið sér líka við hana. Samtökin segjast ætla að birta fréttatengt efni sem tengist innreið og uppgangi Íslams í Evrópu, efni sem þau segja að fjölmiðlar á Íslandi birti ekki vegna þöggunar og pólitísks rétttrúnaðar.
Pegida á Íslandi hefur stofnað Facebook-síðu.
Samtökin hafa staðið fyrir vikulegum mótmælum gegn áhrifum Íslams í evrópskum löndum í Dresden frá því þann 20. október, en þá mættu um 350 manns. Fjölgað hefur hægt og rólega en metfjöldi mætti á mótmælin í gær, eða um 25 þúsund manns, en mótmælin voru haldin til minningar um þá sem létust í hryðjuverkaárásunum í París í síðustu viku. Þetta var gagnrýnt af ráðamönnum í Þýskalandi og dómsmálaráðherrann Heiko Maas hvatti til dæmis til þess að mótmælunum yrði aflýst. „Fórnarlömbin eiga ekki skilið að vera misnotuð af svona áróðursmönnum,“ sagði Maas við þýska blaðið Bild.
Margir aðrir hafa talað gegn samtökunum. Angela Merkel kanslari hefur sagt að þótt allir hafi rétt á að tjá skoðanir sínar þá sé ekki rými í Þýskalandi fyrir áróður gegn innflytjendum. Hún hefur einnig sagt að samtökin beri fordóma, kaldlyndi og jafnvel hatur í hjörtum sínum.
Metfjöldi fólks mætti á mótmælin í gær. Fólk hefur einnig mætt til að mótmæla samtökunum.