Fagfélag fjölmiðlafólks í Namibíu (NAMPU) lýsir yfir áhyggjum af þróun mála á Íslandi, í yfirlýsingu sem félagið sendir frá sér í dag, á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis.
Namibísku samtökin hvetja vinnuveitendur fjölmiðlafólks hér á landi, sem og yfirvöld sem hafa frelsi fjölmiðla á sínu málefnasviði, til þess að gera sitt ýtrasta til að tryggja að fréttamenn geti unnið að almannahagsmunum með því að afhjúpa spillingu.
Í yfirlýsingunni er aðför sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja að íslenskum fréttamönnum, sérstaklega Helga Seljan, mótmælt harðlega. Einnig eru viðbrögð fyrirtækisins við fréttaflutningi, meðal annars með myndböndum þar sem ráðist er að æru fréttamanna og beinni áreitni, fordæmd.
„Fyrirtækið, þrátt fyrir að hafa rétt til þess að svara fyrir ásakanir gegn því, ætti ekki að reyna að bæla opinbera grannskoðun á hlutverki þess í Fishrot-skandalnum,“ segir um Samherja í yfirlýsingu NAMPU.
Samtökin segja einnig að blaðamenn eigi að hafa rétt til þess að verja sig gagnvart árásum Samherja á sínum eigin samfélagsmiðlarásum, en sem kunnugt er kærði Samherji 11 frétta- og dagskrárgerðarmenn á Ríkisútvarpinu til siðanefndar fyrir ummæli um Samherja á samfélagsmiðlum.
Helgi Seljan var einn talinn hafa brotið gegn siðareglunum með ummælum á samfélagsmiðlum og þeirri niðurstöðu verður ekki áfrýjað. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa sagt að niðurstaðan komi ekki til með að hafa nein áhrif á störf Helga fyrir ríkisfjölmiðilinn og unnið er að því að endurskoða siðareglur RÚV.
Samherji hefur hins vegar krafist þess að Helgi fjalli ekki frekar um málefni fyrirtækisins og meðal annars keypt auglýsingu í öðrum íslenskum fjölmiðli, mbl.is, þar sem stjórnendur ríkisfjölmiðilsins eru sakaðir um ábyrgðarleysi.
Birting þeirrar auglýsingar hefur verið gagnrýnd af hálfu stjórnar Blaðamannafélags Íslands. „Á fjölmiðlum eru skörp skil milli auglýsingadeilda og ritstjórna en með þessari auglýsingu var stigið yfir þá línu því herferð Samherja er ekki aðeins herferð gegn einum fréttamanni eða einni ritstjórn heldur beinist hún gegn öllum blaðamönnum og öllum ritstjórnum, þar á meðal blaðamönnum á mbl.is,“ sagði í bréfi stjórnar félagsins til framkvæmdastjóra og auglýsingastjóra Árvakurs, útgefanda mbl.is.
Í kjölfarið hefur trúnaðarmaður Blaðamannafélagsins hjá Árvakri sagt sig frá því hlutverki.
Namibísku samtökin hvetja fjölmiðlafólk um allan heim, sérstaklega í Evrópu, til þess að styðja íslenska kollega sína og fordæma ógnanir í þeirra garð af hálfu fyrirtækja.