Miðflokkurinn, Sannir Finnar og Þjóðarbandalagið munu mynda ríkisstjórn í Finnlandi og hafa hafið stjórnarmyndunarviðræður. Frá þessu var greint í fjölmiðlum í dag. Ríkisstjórnin verður mið-hægri stjórn, en fallið var frá því að reyna að mynda ríkisstjórn fjögurra stærstu flokkanna. Flokkarnir þrír eru með yfir 61% þingsæta.
Kosningar fóru fram í Finnlandi þann 19. apríl síðastliðinn, en Miðflokkurinn var sigurvegari þeirra kosninga með rúmt 21 prósent og 49 af 200 þingsætum.
Juha Sipilä, verðandi forsætisráðherra og leiðtogi Miðflokksins, segir flokkanna hafa náð saman, en ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. Nú þurfi að koma efnahagslífi Finnlands í gang og það þýði meðal annars að taka þurfi erfiðar ákvarðanir.
Sannir Finnar eru popúlískur hægriflokkur sem hefur viljað takmarka fjölda innflytjenda og er mjög gagnrýninn á Evrópusambandið. Flokkurinn vann stórsigur í kosningunum árið 2011 og fór nálægt því að sexfalda fylgi sitt, en var haldið utan við ríkisstjórn.
Þjóðarbandalagið, sem leiddi síðustu ríkisstjórn, er á öndverðum meiði við Sanna Finna í mörgum málum og því var þessi þriggja flokka stjórn ekki talin sú líklegasta. Flokkarnir eru mjög óssamála til að mynda í Evrópusambandsmálum. Þjóðarbandalagið er mið-hægri flokkur og Alexander Stubb, leiðtogi flokksins, var forsætisráðherra í síðustu ríkisstjórn. Flokkurinn tapaði þónokkru fylgi þótt hann sé enn sá næststærsti með 18,2 prósent og 37 þingsæti.
Hvernig ætla Sannir Finnar að leysa vandamál vinnumarkaðarins?
Baldvin Þór Bergsson, fréttaritari Kjarnans í Svíþjóð, skrifaði ítarlega um mögulegar stjórnarmyndundarviðræður í Finnlandi daginn eftir kosningar. Fréttaskýringu hans má lesa hér, en í henni kom meðal annars fram eftirfarandi.
Ef marka má yfirlýsingar Sannra Finna mætti leysa flest vandamál Finnlands með því að draga úr fjölda innflytjenda. Þeir skilgreina finnska menningu afar þröngt og því er ekki aðeins hugtakið fjölmenningarsamfélag eitur í þeirra beinum heldur hafa þeir gagnrýnt fjárframlög til ýmissa listgreina. Jafnframt vilja þeir draga úr fjölda innflytjenda og takmarka möguleika þeirra á vinnumarkaði. Þessi stefna fer hins vegar illa saman við þá staðreynd að finnska þjóðin eldist hratt og því eru í raun aðeins tveir möguleika í stöðunni. Annað hvort þarf að fjölga innflytjendum til þess að halda vinnumarkaðinum uppi, eða gjörbreyta kerfinu þannig að fólk vinni lengur og þyggi því ekki lífeyri fyrr en mun síðar en það gerir í dag.