Sextán ára stúlka í Pennsylvaníu ríki í Bandaríkjunum varð fyrir heldur ógeðslegri lífsreynslu á dögunum, þegar hún fagnaði afmæli sínu ásamt vinum sínum og fjölskyldu, þegar saur tók að rigna yfir afmælisveisluna hennar sem haldin var utandyra. Fréttastöðin FOX29 greinir frá málinu.
Svo virðist sem að farþegaflugvél hafi losað salernistanka sína rétt í þann mund er hún flaug yfir afmælisveisluna. Ekki er vitað til að nokkru sinni fyrr hafi verið haldin afmælisveisla með jafn mikilli bókstaflegri skítastemmningu.
„Eins og þruma úr heiðskýru lofti tók skyndilega að rigna saur yfir viðstadda, sem lenti meðal annars á sjálfu afmælisbarninu,“ segir stjúpfaðir hinnar sextán ára gömlu Jacinda Cambray, í samtali við bandarísku fréttastöðina. Um fjörutíu manns tóku þátt í afmælisveislunni.
Mest af úrgangnum lenti blessunarlega á tjaldi sem hafði verið komið upp í bakgarðinum í tilefni af afmælisveislunni.
„Við vorum nýbúin að fá okkur afmæliskökuna, guði sé lof,“ segir einn afmælisgesturinn í samtali við fréttamann FOX29. „Það var nýbúið að fara inn með kökuna þegar einhverju tók að rigna yfir okkur. Það var brúnt, það fór út um allt og fór á allt.“
Hér má sjá afmælisbarnið og kökuna góðu skömmu áður en „skítaveðrið“ skall á. Mynd: FOX29
Einn afmælisgesturinn notaði smáforrit í snjallsímanum sínum til að sjá að fimm flugvélar voru á flugi yfir afmælisveislunni. Fjölskylda afmælisbarnsins sendu bandarískum flugmálayfirvöldum formlega kvörtun vegna atviksins, en farþegaflugvélum er skylt að tæma salernistanka sína á jörðu niðri.
Sjá umfjöllun FOX29 í heild sinni hér að neðan.