„Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá.“ Þetta segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Stundina sem kom út í dag.
Þar segir hann að sú peningastefna sem Seðlabanki Íslands reki sé velferðarstefna og markmið hennar sé að tryggja öryggi fyrir venjulegt fólk, ekki sérhagsmunaaðila. Stöðugleiki í gengi, sem næst með inngripum bankans á gjaldeyrismarkað, sé þar lykilbreyta. „Góð peningastefna skiptir þá tekjulægstu mestu máli; þeir tapa mestu á verðbólguskoti eða einhverri slíkri kollsteypu eða umsnúningi. Þetta skiptir mig mjög miklu máli. Ég lít á þetta sem velferðarstefnu. Ég vil tryggja lága verðbólgu og lága vexti. Þetta eru grundvallaratriði fyrir góð lífskjör á Íslandi.[...]Við erum lítil þjóð, Ísland, en ef við sýnum samstöðu og samfélagslega ábyrgð þá getum við gert ansi margt.“
Ásgeir, sem starfaði hjá Kaupþingi fyrir bankahrun, segir í viðtalinu að það sé alveg skýrt að á meðan að hann gegnir starfi seðlabankastjóra þá fái fjármálakerfið aldrei að fara í þá átt aftur sem það fór þá. „Að við séum að sjá að stjórn landsins sé komin í hendurnar á einhverjum svona mógúlum.“ Á meðal þess sem hann kallar eftir er aukning á heimildum fyrir fjármálaeftirlitið til að sinna eftirliti með fjármálakerfinu. Það þurfi að vera miklu harðara.
Mjög ósáttur við aðfarir Samherja að starfsmönnum
Í viðtalinu fjallar Ásgeir einnig um aðfarir Samherja gagnvart fimm starfsmönnum Seðlabanka Íslands, en fyrirtækið kærði starfsmennina fimm, þar á meðal Má Guðmundsson fyrrverandi Seðlabankastjóra, til lögreglu vorið 2019 eftir að Seðlabankinn hafnaði því að greiða Samherja bætur vegna hins svokallaða Seðlabankamáls. Það mál hefur til skoðunar hjá lögreglustjóranum á Vestfjörðum.
Ásgeir segist ekki skilja „hvern andskotann þessi lögreglustjóri þarf að rannsaka og af hverju þessu er ekki bara vísað frá. Ég óttast það að mörgu leyti, í svona eftirlitsstofnun eins og Seðlabankinn er, að við lendum í því að við verðum hundelt persónulega eins og farið var á eftir þessu starfsfólki.“
Greint var frá því opinberlega eftir að viðtalið við Ásgeir birtist að kæru Samherja til lögreglu hefði verið vísað frá í mars, en að Samherji hefði kært þá niðurstöðu til ríkissaksóknara.
Ásgeir segir í viðtalinu að það sé ótækt að einkafyrirtæki eins og alþjóðlegi útgerðarrisinn Samherji geti ráðist persónulega að ríkis- og embættismönnum með þeim hætti sem hann telur að hafi átt sér stað. „Þetta starfsfólk var kært fyrir eitthvað sem við vitum ekki enn þá hvað. Þetta er ákveðinn vandi; löggjafinn hefur ekki enn veitt okkur vernd fyrir svona ásókn. Seðlabankinn mun að sjálfsögðu standa straum af málskostnaði vegna þessara mála. En ég er mjög ósáttur við þetta, að þessar kærur hafi ekki verið afgreiddar og það hafi ekki verið gengið frá þessu. Og ég er mjög ósáttur við þennan anga af þessu Samherjamáli: Að farið hafi verið svona persónulega á eftir þessu fólki.[...]Eitt er að fara gegn stofnuninni, það er hægt að berja á þessari stofnun eða mér sem framkvæmdastjóra hennar. En ég er mjög ósáttur við að farið sé á eftir einstaka starfsmönnum með þessum hætti. Það má alveg berja á þessari stofnun, hún er virki, en það má ekki gera þetta svona persónulega gegn fólki.“