Forsætisráðuneytið áformar að breyta lögum um Seðlabankann, á þann veg að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri taki við formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd bankans. Formennska í þeirri nefnd hefur verið í höndum Unnar Gunnarsdóttur varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá því Seðlabankinn tók við eftirliti með fjármálastarfsemi í ársbyrjun 2020.
Formennska í öðrum nefndum bankans, peningastefnunefnd og fjármálastöðugleikanefnd, er einnig í höndum seðlabankastjórans í dag. Er verið var breyta lögum til þess að sameina Seðlabankanna og FME stóð samkvæmt framlögðu frumvarpi til að seðlabankastjóri færi einnig með formennsku í fjármálaeftirlitsnefndinni, en því var breytt í meðförum Alþingis árið 2019.
Í nefndaráliti á Alþingi á þeim tíma var breytingin rökstudd þannig að með henni væri verið að reyna að draga úr orðsporsáhættu, sem rýrt gæti trúverðugleika Seðlabankans og haft neikvæð áhrif á starfsemi hans á öðrum sviðum, auk þess sem þetta væri gert til að milda áhrif þeirrar miklu samþjöppunar valds sem fælist í sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Aukið flækjustig fylgi núverandi fyrirkomulagi
Úttektarnefnd sem var skipuð í fyrra til þess að fara yfir reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans á árunum 2020 og 2021, í kjölfar þess að breytingar voru gerðar á stjórnkerfi bankans við sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka sem tók gildi um áramót 2020, mælti með því að þessi breyting yrði gerð.
„Seðlabankastjóri ætti að gegna formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd, eins og í hinum nefndunum, eins og lagt var til í upphaflegu frumvarpi til laga árið 2019. Mismunandi formennska býr til flækjustig og það gerir einnig hið margbrotna framsal valds og hin lagskipta stjórnsýsla sem búin er til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunarinnar,“ sagði í skýrslu úttektarnefndarinnar, sem forsætisráðuneytið er nú að bregðast við með fyrirhuguðum lagabreytingum, sem eru til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda þessa dagana.
Í skýrslu nefndarinnar kom einnig fram að áhyggjur sem settar voru fram á þingi af orðsporsáhættu fyrir Seðlabankann vegna setu seðlabankastjóra í fjármálaeftirlitsnefnd virðist hafa verið ýktar. Í viðtölum nefndarinnar við aðila innan og utan Seðlabankans kom fram að Seðlabankinn myndi „í raun aldrei sleppa við gagnrýni eða óánægju með fjármálaeftirlitsstarfsemina þótt ákvarðanir séu teknar án þátttöku bankastjórans“.
Vilja einnig breyta ákvæðum um ákvarðanatöku
Auk áðurnefndra breytinga sem varða formennskuna í nefndinni stendur einnig til að ákvæðum laga um töku ákvarðana á sviði fjármálaeftirlits verði breytt. Nánar tiltekið á að nú að fela Seðlabankanum að taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, en í dag gera lög ráð fyrir því að fjármálaeftirlitsnefnd taki slíkar ákvarðanir, en geti framselt það vald til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits ef ákvarðanir teljast ekki meiri háttar.
Ef þetta hljómar dálítið flókið, þá er það sennilega sökum þess að þetta er fremur flókið. Í skýrslu úttektarnefndarinnar sagði að miðað við þetta margbrotna framsal valds og lagskipta stjórnsýslu sem búin væri til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunar væri ekki hægt að fullyrða að réttaröryggi og réttlát málsmeðferð væru tryggð, og taldi nefndin að heppilegra væri að koma í veg fyrir lagaleg álitamál sem geti skapast með endurbótum á löggjöf eða framkvæmd.
„Í samræmi við þetta er áætlað að leggja til breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem kveðið verði á um að Seðlabanki Íslands taki ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og kveða jafnframt á um að fjármálaeftirlitsnefnd skuli taka íþyngjandi ákvarðanir, svo sem um álagningu stjórnvaldssekta. Hvað undir það fellur verður að hluta til skilgreint í lögum en að hluta til útfært í starfsreglum nefndarinnar,“ segir í skjali forsætisráðuneytisins, þar sem áformin um lagabreytingarnar eru útlistuð.