Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, mun að öllum líkindum tilkynna miklar örvandi aðgerðir seinna í dag sem ætlað er að örva hagkerfi evrusvæðisins. Samkvæmt fréttum stendur til að kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 50 milljarða evra á mánuði út árið 2016, um tvöfalt hærri upphæðir en áður hafði verið talið. 50 milljarðar evra jafngilda 7.633 milljörðum króna.
Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu.
Fyrr í þessum mánuði sýndu tölur að verðhjöðnun væri á evrusvæðinu. Aðgerðirnar eiga að lækka lánakostnað, og hvetja banka þannig til þess að lána meira til fyrirtækja og einstaklinga og örva hagkerfið.
Talið er að þessar aðgerðir hefjist í mars, en lokaákvörðunin verður tekin á fundi stjórnar seðlabankans í dag. Enn er talið mögulegt að fulltrúi Þýskalands í stjórninni muni mótmæla þessum aðgerðum, að því er fram kemur í frétt BBC.
Þjóðverjar vilja frekar að ef ráðist verður í stórtæk kaup á ríkisskuldabréfum verði það í höndum ríkjanna sjálfra frekar en að þau séu í höndum bankans. Þýskir sérfræðingar hafa varað við verðlækkunum og minnkandi fjárfestingum, en ríkisstjórn Þýskalands hefur reynt að fjarlægja sig ákvörðun bankans.
Í gærkvöldi gekk Markus Ferber, einn áhrifamesti Evrópuþingmaður Þýskalands, þó lengra en aðrir stjórnmálamenn hafa gert opinberlega í gagnrýni á ætlaðar aðgerðir bankans. Ferber er varaformaður í efnahags- og peningamálanefnd Evrópuþingsins.
„Ég held að það sé ekki á ábyrgð Seðlabanka Evrópu að taka pólitískar ákvarðanir og það er það sem mun gerast,“ með fyrirhuguðum ríkisskuldabréfakaupum, eða magnbundinni íhlutun, sagði Ferber við Evrópufréttavefinn euractiv.com.
Hann segist telja aðgerðirnar ganga lengra en seðlabankanum sé heimilt. „Stærsta verkefnið er verðstöðugleiki, og núna er bankinn að berjast gegn einhverju sem er ekki að gerast. Það er ekki verðhjöðnun, ef við minnkum áhrif olíu- og gasverðs er verðbólga í Evrópusambandinu og mér sýnist að Seðlabanki Evrópu sé að berjast gegn því sem ekki á sér stað.“
Efnahags- og framfarastofnunin hvatti seðlabankastjórann Mario Draghi hins vegar til þess að halda sig við þessar aðgerðir. Angel Gurria, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, talaði um málið í gær á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins, sem nú fer fram í Davos í Sviss. „Leyfið Mario ganga eins langt og hægt er. Ég held ekki að það ætti að setja takmörk. Ekki segja 500 milljarðar evra. Segið bara „förum eins langt og við getum, eins mikið og við þurfum.““