Seðlabankinn hefur fært niður spá sína um fjölda erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands í ár um 40 þúsund manns, en nú telur hann að þeir verði 660 þúsund talsins. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála, sem kom út í morgun.
Stökkbreytt afbrigði vega þungt
Samkvæmt heftinu er talið að fjölgun ferðamanna verði hægari en spáð var í fyrra hefti peningamála, sem kom út í febrúar, þar sem faraldurinn hefur reynst þrálátari í helstu viðskiptalöndum Íslands. Bankinn nefnir einnig að hertar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hérlendis til að sporna við því að smit berist til landsins spili þar inn, eftir að ný stökkbreytt afbrigði veirunnar hafa litið dagsins ljós sem hafa reynst meira smitandi.
Vöxturinn hefst í ágúst
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans sagði á vaxtaákvarðanafundi fyrr í dag að spá bankans byggi á bókunarupplýsingum og spám um framvindufaraldursins í öðrum viðskiptalöndum Íslands. Samkvæmt honum mun vöxturinn í komu ferðamanna hefjast að marki í ágúst.
Bankinn birti svo sérstaka rammagrein til viðbótar við Peningamál, þar sem forsendur fyrir spá um sóttvarnaraðgerðir á landamærunum voru raktar. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að núverandi fyrirkomulagi sóttvarna við landamæri með skimunum og sóttkví verði viðhaldið fram á haust með undanþágum. Eftir að sóttvörnum á landamærunum verður slakað muni ferðamönnum svo fjölga hratt.
Þriðjungsfjölgun frá því í fyrra
Ef spá Seðlabankans gengur upp mun ferðamönnum sem koma til Íslands fjölga um rúmlega þriðjung frá því í fyrra. Samkvæmt bankanum er þetta áþekk fjölgun og Alþjóðasamband flugfélaga spáir að flugfarþegum fjölgi á heimsvísu. Áfram sé gert fyrir að framleiðslugeta ferðaþjónustu og tengdrar starfsemi varðveitist og sé því tiltölulega auðvelt að mæta þessari auknu aðsókn.
Landsbankinn mun bjartsýnni
Spá Seðlabankans er töluvert frábrugðin þeirri sem Landsbankinn birti í gær, en þar uppfærði bankinn væntan fjölda ferðamanna í ár úr 650 þúsund í 800 þúsund. Samkvæmt bankanum munu ferðalög hingað til lands taka vel við sér á þriðja og fjórða ársfjórðungi, auk þess sem eldgosið í Geldingadölum muni draga að sér aukinn fjölda ferðamanna á meðan það varir.
Seðlabankinn telur aftur á móti að batinn verði hægari í ferðaþjónustu í ár heldur en áður var gert ráð fyrir og að þjónustuútflutningur vaxi því hægar. Munurinn á ferðamannaspám er ein ástæðan fyrir því að miklu munar á hagvaxtarspám bankanna, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 3,1 prósenta hagvexti í ár á meðan Landsbankinn gerir ráð fyrir að hann muni nema 4,9 prósentum.