Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að greiða fyrirfram eftirstöðvar láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Um er að ræða endurgreiðslu að jafnvirði um 42 milljarða króna, með gjalddaga 2015 og 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.
„Lausafjárstaða Seðlabankans er rúm um þessar mundir, meðal annars vegna viðskipta bankans á innlendum gjaldeyrismarkaði. Því er svigrúm til að minnka skammtímaskuldir í erlendum gjaldeyri. Með fyrirframgreiðslunni lækka erlendar skuldir þjóðarbúsins og Seðlabankans. Seðlabankinn var lántaki þar sem hann er fjárhagslegur aðili að AGS fyrir hönd íslenska ríkisins og er því ekki um að ræða bein áhrif á skuldir ríkissjóðs. Gjaldeyrisforði dregst saman vegna ofangreindrar skuldastýringar,“ segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.
Lánið frá AGS var tekið í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda hér á landi og AGS í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Heildarfjárhæð lánsins, sem tekið var í áföngum í samræmi við efnahagsáætlunina, nam um 250 milljörðum króna (1.400 milljónum SDR) þegar áætluninni lauk í ágúst 2011. Ísland tók einnig lán frá Norðurlöndunum, Færeyjum og Póllandi að fjárhæð 304 milljörðum króna (1.970 milljónir evra) í tengslum við efnahagsáætlunina en þau lán voru greidd fyrirfram á árunum 2012 til 2015. „Með uppgreiðslu AGS-lánsins lýkur jafnframt eftirfylgni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi í kjölfar loka efnahagsáætlunarinnar (e. post program monitoring),“ segir í tilkynningunni.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að uppgreiðsla lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrr en áætlað var sé til marks um „ágætan árangur af efnahagsáætluninni“.