Meginvextir Seðlabanka Íslands munu hækka um 0,25 prósentustig og verða 1 prósent, samkvæmt nýrri tilkynningu peningastefnunefndar bankans.
Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2018 sem nefndin hefur ákveðið að hækka vexti. Síðan þá hafa þeir ýmist lækkað eða staðið í stað, úr 4,5 prósentum niður í 0,75 prósent.
Samkvæmt nefndinni hafa efnahagshorfur batnað frá fyrri spám og vega þar þyngst vísbendingar um meiri bata innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi hefur hjaðnað þótt það sé enn mikið. Slakinn í þjóðarbúskapnum virðist því vera minni og útlit er fyrir að hann hverfi fyrr en áður var talið.
Hins vegar hefur verðbólga reynst meiri og þrálátari en áður var spáð, meðal annars vegna framboðstruflana í heimshagkerfinu í kjöfar farsóttarinnar, en alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur einnig hækkað mikið undanfarið.
Nefndin nefnir einnig áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra á verðvísitöluna, sem og miklar hækkanir launa og húsnæðisverðs. Það sé því nauðsynlegt að hækka vexti bankans til þess að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu.