Greiðsluvandinn sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa glímt við undanfarið ár vegna tekjufalls gæti breyst í skuldavanda hjá stórum hluta greinarinnar þegar fyrirtækin byrja að greiða af lánum sínum á ný. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleika, sem Seðlabankinn gaf út fyrr í dag.
Skuldir aukast
Samkvæmt Seðlabankanum hafa skuldir ferðaþjónustufyrirtækja aukist nokkuð í kjölfar farsóttarinnar og var útlánavöxtur kerfislega mikilvægra banka til ferðaþjónustu rúmlega 11% á síðasta ári. Stór hluti aukningarinnar skýrist af frestuðum afborgunum og vaxtagreiðslum á árinu, auk nýrra stuðnings- og brúarlána.
Til viðbótar hafði gengislækkun krónunnar á árinu þau áhrif að lán í erlendum gjaldeyri hækkuðu í krónum talið en þau nema tæplega þriðjungi útlána til ferðaþjónustu. Sú hækkun jók einnig á skuldsetningu ferðaþjónustufyrirtækjanna
Seðlabankinn segir að gjaldþrot í greininni hafi enn sem komið er verið fátíð og endurskipulagning skulda fyrirtækja í greininni eiga að stórum hluta eftir að fara fram. „Nú þegar hillir undir endalok faraldursins er brýnt að fara að huga að því verkefni,“ stendur í ritinu.
Ekki allir hagnast á íslensku ferðaþjónustusumri
Seðlabankinn bætir við að útlit sé fyrir því að komandi sumri muni svipa til þess síðasta að því leyti að innlend ferðamennska verði í fararbroddi, svo lengi sem létt verði á sóttvarnaraðgerðum innanlands. Þetta ástand kæmi sér ekki vel fyrir hluta greinarinnar sem reiðir sig að nær öllu leyti á þjónustu við erlenda ferðamenn, t.d. gististaðir á höfuðborgarsvæðinu, ýmis afþreyingafyrirtæki og ferðaskrifstofur.