„Velferðarsamfélagið stendur ekki undir sér ef fólk hættir að eignast börn,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag. Þorbjörg fjallaði um fæðingartíðni íslenskra kvenna sem hefur dregist saman um sem nemur hálfu barni síðustu tíu árum.
Þorbjörg Sigríður vísaði til orða Ernu Solberg sem hvatti Norðmenn til að eignast fleiri börn en fæðingartíðni þar í landi hefur einnig lækkað töluvert. „Hún sagði að hún þyrfti sennilega ekki að útskýra hvernig þetta sé gert, né ætlaði hún að gefa beinar skipanir en henni var alvara því Norðmönnum, þeim fjölgar ekki nægilega,“ sagði Þorbjörg.
Hún sagði aldurspíramída á hvolfi ekki geta staðið undir velferð. Hér á landi fæddust of fá börn til þess að halda jafnvæginu til lengri tíma litið. Því ætti kappsmál stjórnvalda að vera að stuðla að frekari barneignum að mati Þorbjargar.
Þetta væri eitthvað til að hugsa um, nú þegar fólk dvelst mikið heima við. „Við eigum þess vegna að hvetja frjósemisgyðjuna til dáða, hvetja hana til að leggjast undir feld. Um þetta ættu landsmenn að hugsa núna þegar þeir ferðast innanhúss og innanlands í sumar að gleyma þá ekki að ferðast kannski bara dálítið í svefnherberginu.“
Fæðingartíðni lækkaði milli ára
Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar fjölgaði fæddum börnum milli áranna 2020 og 2019 en fæðingartíðni lækkaði. Fjöldi lifandi fæddra barna árið 2020 var 4.512 samanborið við 4.452 á árinu 2019.
Fæðingartíðnin lækkaði aftur á móti úr 1,75 árið 2019 niður í 1,72. Samkvæmt frétt á vef Hagstofunnar er fjöldi lifandi barna á ævi hverrar konu helsti mælikvarði á frjósemi. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið.