Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á þeim tækifærum sem felast í fjarvinnu og markvissri fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað.
Hún er ekki síst að horfa á hið opinbera þar sem fjarvinna getur átt við. „Með þessu gætu íslensk stjórnvöld orðið leiðandi um að festa fjarvinnustefnu í sessi,“ sagði hún undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
„Fyrir heimsfaraldurinn vissum við mörg um kosti fjarvinnu en fáir höfðu kannski reynt hana af fullum þunga. En nú eru bæði einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir reynslunni ríkari og þekkja hvaða jákvæðu áhrif fjarvinna getur haft á starfsánægju, framleiðni og sveigjanleika í starfi.
Fastur vinnustaður er ekki eina leiðin og það er kostur fyrir margt fólk, ekki síst fjölskyldufólk, að geta unnið að heiman eða í blandaðri vinnu á skrifstofu. Reynslan og þekkingin sem við öðluðumst í COVID má þess vegna ekki renna út í sandinn,“ sagði hún.
Eitt ráðuneyti af tólf með framsækna stefnu í þessum efnum
Þá telur Þorgbjörg að fjarvinna geti einnig haft jákvæð áhrif á samgöngur og umferðarþunga og þannig stutt við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum.
„Fjarvinnustefna felur í sér tækifæri fyrir landsbyggðirnar, að það sé hægt að stunda vinnu óháð búsetu. Finnland hefur verið leiðandi um að liðka fyrir fjarvinnu þegar kostur er á og sveigjanlegur vinnutími hefur verið lögfestur þar í landi, alveg frá 1996 og árið 2020 tóku gildi lög þar í landi sem heimila starfsfólki í fullu starfi rétt á að skipuleggja um helming vinnutíma síns, þ.e. hvar og hvenær vinnan er unnin. Sem stendur er eitt ráðuneyti hér af 12 með framsækna stefnu í þessum efnum.
En ég velti því fyrir mér hvers vegna Stjórnarráðið allt vinnur ekki eftir fjarvinnustefnu. Þannig væri hægt að laða að starfsfólk, það væri hægt að spara í skrifstofurekstri og ferðakostnaði, auka sveigjanleika starfsfólks og leggja markmiðum á sviði loftslagsmála lið. Íbúar á landsbyggðunum gætu keppt um störf opinberra stofnana með því að vinna í fjarvinnu,“ sagði hún jafnframt.