Opinber framlög í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála munu dragast saman um tvo milljarða króna á næstu árum, gangi nýútgefin fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir. Sömuleiðis mun stuðningur við orkumál dragast saman um 400 milljónir króna og útgjöld til húsnæðismál minnka um 1,4 milljarða króna.
Ástæðan fyrir samdrættinum í stuðningi við þessa málaflokka liggur ekki alltaf fyrir, en í þeim öllum er minnst á fjölda aðgerða sem ráðast þyrfti í á næstu árum.
Minni framlög í orkuskipti
Ríkisstjórnin leggur fram ýmsar aðgerðir í orkumálum til að stuðla að orkuskiptum og tryggja orkuöryggi hérlendis í nýútgefinni fjármálastefnu. Þeirra á meðal er lagning jarðstrengja um allt landið og þrífösun dreifikerfis raforku, en einnig segir þar að hraða megi á rafvæðingu bílaflotans í ferðaþjónustu, ásamt því að auka notkun lífeldsneytis í sjávarútvegi og fanga kolefnisútblástur frá stóriðju og jarðvarmavirkjunum.
Þar að auki segir í áætluninni að mikilvægt sé að Ísland verði áfram vettvangur fyrir öflun og miðlun alþjóðlegrar þekkingar á jarðhitanýtingu og miðlun hennar í formi menntunar, ráðgjafar, þróunar og verndunar hugverka. Efla þurfi orkurannsóknir og leggja eigi aukna áherslu á alþjóðlegt samstarf, meðal annars til að auka árangur í sölu á vörum og þekkingu.
Þrátt fyrir það gerir ríkisstjórnin ekki ráð fyrir að setja meiri pening í málaflokkinn, en samkvæmt áætluninni mun útgjaldarammi til orkumála minnka um 400 milljónir króna að raunvirði á næstu fimm árum. Samkvæmt ríkisstjórninni er samdrátturinn vegna minni stuðnings við orkuskipta í framtíðinni, en hann mun lækka um 100 milljónir króna á næsta ári og aðrar 250 milljónir króna á árinu 2025.
Þessar fjárhæðir munu svo færast í önnur loftslagstengd verkefni, svo sem til aðgerða á sviði náttúrumiðaðra lausna, landbúnaðar og í frekari stuðning við breyttar ferðavenjur.
Mikill samdráttur í jafnréttis- og velferðarmálum
Annar útgjaldaliður sem mun dragast saman að raunvirði á næstu árum er lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála. Þaðan koma peningar sem fara meðal annars í forvarnir og lýðheilsu, en einnig í jafnréttis- og mannréttindamál.
Samkvæmt áætluninni munu framlög stjórnvalda í þessi mál dragast saman um tæpa tvo milljarða króna á næstu fimm árum. Þó eru þar nefnd ýmis verkefni sem ráðast ætti í, til dæmis aðgerðir gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, auk aðgerða til að vinna gegn kynbundum launamun.
Ríkisstjórnin nefnir einnig að styrkja eigi áfram heilsueflandi skóla og heilsueflandi samfélag með því að styðja við íþróttir, æskulýðsstarf, öldrunarstarf, heilsueflingu aldraðra og heilsueflingu á vinnustöðum.
Hins vegar nefnir ríkisstjórnin ekki hvers vegna vænt útgjöld í málaflokkinn –sem nema rúmum tólf milljörðum króna í fjárlögum fyrir þetta ár – muni nema 10,5 milljörðum króna á næsta ári.
Húsnæðismál á hakanum
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um munu framlög stjórnvalda í húsnæðis- og skipulagsmál einnig dragast saman á næsta ári, samkvæmt áætluninni. Þar ber helst að nefna niðurfellingu á stofnframlögum sem hafa verið veitt til kaupa eða bygginga almennra leiguíbúða á síðustu tveimur árum að andvirði tveggja milljarða króna. Þó verða framlög til húsnæðisbóta aukin um hálfan milljarð, þar sem ríkisstjórnin býst við fjölgun leigjenda.
Stofnframlögin, sem eiga að hvetja til aukins framboðs á íbúðum fyrir lágtekjuhópa, eru minnkuð á sama tíma og ríkisstjórnin segir að skortur sé á framboði á húsnæðismarkaði. Alls munu útgjöld hins opinbera í málaflokkinn dragast saman um 1,4 milljarða króna, úr 16,3 milljörðum niður í 14,9 milljarða króna.