Guðmundur Steingrímsson, fráfarandi formaður Bjartrar framtíðar, segir að sér finnist það „ævintýralega fáránlegt og svo mikið bull að maður hefur aldrei fundið sig þurfa að tala eitthvað um þetta" að flokkurinn hafi ekkert erindi. Þetta kom fram í ávarpi hans á ársfundi flokksins sem fram fer á Ásbrú í Reykjanesbæ í dag.
Í ávarpinu sagði Guðmundur að alls staðar í samfélaginu væri æpandi þörf fyrir þá langtímahugsun sem flokkurinn hafi að leiðarljósi. "Það sem einkum hefur verið sagt um okkur á vettvangi stjórnmála á Íslandi, af stjórnmálafræðingum jafnvel og fólki sem hefur atvinnu af því að tala um stjórnmál, er að við höfum enga stefnu. Að Björt framtíð snúist bara um að breyta klukkunni eða að flokkurinn hafi bara ekkert erindi. Mér finnst þetta svo ævintýralega fáránlegt og svo mikið bull að maður hefur aldrei fundið sig þurfa að tala eitthvað um þetta."
Guðmundur sagði að á fundinum myndi Björt framtíð leggja fram þrettán blaðsíðna „gjörsamlega ofvirka" heilbrigðisstefnu. „Er það ekki erindi. Við viljum byggja upp heilsugæsluna, byggja upp lýðheilsu, byggja spítalann, drífum okkur í því. Það þarf að gera þessa hluti. Það er alls staðar æpandi þörf fyrir langtímahugsun og aðferðir Bjartrar framtíðar í þessu samfélagi.“
Ótarr verður formaður síðar í dag
Síðar í dag mun alþingismaðurinn Óttarr Proppé taka við formennsku í Bjartri framtíð, en hann er einn í framboði. Áður hafði Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og sveitastjórnarfulltrúi flokksins þar, tilkynnt um framboð til forystustarfa fyrir flokkinn, meðal annars í embætti formanns. Samkvæmt frétt sem birtist á heimasíðu Bjartrar framtíðar í morgun kemur hins vegar fram að Guðlaug sækist nú einvörðungu eftir embætti stjórnarformanns flokksins. Það gera Brynhildur S. Björnsdóttir (gjaldkeri og varaþingmaður Bjartrar framtíðar), Preben Pétursson (varaþingmaður Bjartrar framtíðar) og Matthías Freyr Matthíasson líka.
Óttarr tekur við formennsku af Guðmundi Steingrímssyni, sem er ekki í framboði á fundinum. Brynhildur Pétursdóttir verður nýr þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. Um það var tekin ákvörðun á þingflokksfundi í gær. Hún tekur við af Róberti Marshall.