Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi í nýliðnum kosningum, segir að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um að kosningalög hafi verið brotin á fleiri þáttum en einungis geymslu kjörgagna í Norðvesturkjördæmi þegar endurtalning átti sér stað þar eftir kosningarnar.
Í kæru hans til Alþingis vegna kosninganna, sem skilað var inn síðastliðinn föstudag og Kjarninn hefur undir höndum, segir að boðun og skipun umboðsmanna, umgengni einstakra kjörstjórnarmanna um óinnsigluð kjörgögn og undirskriftir í gerðabók yfirkjörstjórnar hafi ekki verið í samræmi við lög. „Loks eru vísbendingar um að fleiri alvarlegir misbrestir hafi verið til staðar og er þar helst að nefna misræmi milli bókana í gerðabók og frásagna einstakra kjörstjórnarmanna um atburðarás um hádegisbil á sunnudeginum og meintrar neitunar á undirritun einstakra kjörstjórnarmanna á fundargerð í gerðabók yfirkjörstjórnar. Þá þætti, sem ekki eru að fullu ljósir, þarf að upplýsa til hlítar.“
Vill að fyrri talning standi
Karl Gauti er einn þeirra fimm frambjóðenda sem hlaut jöfnunarþingsæti eftir að upprunalegar lokatölur í Norðvesturkjördæmi voru kynntar skömmu eftir klukkan sjö að morgni 26. september síðastliðins. Síðar sama dag tók formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi þá ákvörðun að endurtelja atkvæðin, sú endurtalning skilaði nýrri niðurstöðu og fimmmenningarnir misstu þingsæti sitt til fimm flokksfélaga sinna.
Allir frambjóðendurnir fimm sem misstu sæti sitt hafa kært framkvæmd kosninganna til Alþingis, sem mun á endanum taka ákvörðun um hvaða þingmenn séu réttkjörnir.
Karl Gauti krefst þess í sinni kæru að lokatölur, eins og þær voru tilkynntar laust upp úr klukkan sjö að morgni sunnudagsins 26. september síðastliðins, verði látnar standa sem endanlegar lokatölur úr kjördæminu. Hann krefst þess þess einnig að Alþingi úrskurði „að kjörbréf Bergþórs Ólasonar, Gísla Rafns Ólafssonar, Guðbrands Einarssonar, Jóhanns Páls Jóhannssonar og Orra Páls Jóhannssonar séu ógild og að gefin verði út ný kjörbréf af landskjörstjórn til Guðmundar Gunnarssonar, Hólmfríðar Árnadóttur, Karls Gauta Hjaltasonar, Lenya Rúnar Talia Karim og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur.“
Ekki undirritað í samræmi við lög
Í rökstuðningi sem fylgir kærunni segir Karl Gauti, sem sjálfur var formaður yfirkjörstjórnar í Suðurlandskjördæmi á árunum 1998 til 2003 og í Suðurkjördæmi frá 2003 til 2017, að staðfest sé að kjörgögnin í Norðvesturkjördæmi hafi legið „óinnsigluð á víð og dreif í talningarsalnum á hótelinu í Borgarnesi“ eftir að fyrstu lokatölur voru gefnar út. Hvorki gögnin né salurinn hafi verið innsigluð og formaður yfirkjörstjórnar, Ingi Tryggvason, hafi mætt aftur á talningastað fyrstur allra klukkan 11:46 síðar þennan dag. Þar hafi hann verið einn með kjörgögnunum til 12:15, eða í 29 mínútur.
Karl Gauti vísar svo í frétt sem birtist á DV.is 30. september síðastliðinn þar sem haft var eftir ónafngreindum heimildarmanni að þegar kjörstjórnarmenn hafi mætt til fundar kl. 13:00 og áður en fundur hafi verið settur hafi meðhöndlun atkvæða verið hafin. Engin tilraun hefur verið gerð til að hrekja þann fréttaflutning þrátt fyrir að fundargerð yfirkjörstjórnar greini öðruvísi frá málavöxtum.
Í frétt DV er sagt að ekki hafi verið eining meðal kjörstjórnarinnar um endurtalninguna og hluti kjörstjórnarmanna hafi neitað að undirrita fundargerðina síðdegis á sunnudeginum.
Karl Gauti segir í kæru sinni að upplýsa þurfi um sannleiksgildi þeirrar frásagnar. „Nauðsynlegt er að upplýsa nákvæmlega hver atburðarásin var í þessu tilfelli.“
Telur mikilvægt að bíða niðurstöðu lögreglu
Karl Gauti hefur einnig kært meðhöndlun kjörgagna yfirkjörstjórnar til lögreglu. Það gerði hann strax daginn eftir að endurtalningin átti sér stað, 27. september. Í kærunni til þingsins kemur fram að engin viðbrögð hafi enn borist frá lögreglu. Hann telur þó mikilvægt að beðið sé niðurstöðu rannsóknar lögreglu í málinu. „Í þeirri niðurstöðu kunna að koma fram mikilvægar upplýsingar sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en kjörbréfanefnd lýkur störfum og leggur tillögur sínar fyrir Alþingi.“
Í kæru Karls Gauta til þingsins segir að það sé mat hans að hvorki sé hægt að bjóða þjóðinni né Alþingi upp á að leggja til grundvallar tölur sem fengnar séu með ólögmætri endurtalningu. „Af hálfu landskjörstjórnar er staðfest að ef skilyrði um geymslu kjörgagna eru ekki uppfyllt er endurtalning ekki lögleg eins og kemur skýrt fram hér að framan. Útilokað er því í ljósi atvika þessa máls að Alþingi geti staðfest kjörbréf fimm tilgreindra einstaklinga sem rétt kjörinna alþingismanna á grundvelli þessarar endurtalningar. Gagnvart umheiminum myndi orðstír Íslands sem lýðræðisríki bíða verulegan hnekki. Mikilvægast af öllu er að Íslendingar geti treyst því að hér á landi gildi lýðræðislegar leikreglur og að virt séu ákvæði kosningalaga við kjör til Alþingis.“