Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi beinlínis unnið gegn nýjum öflum innan verkalýðshreyfingarinnar, sem hún tilheyrir, á undanförnum árum og grafið undan leiðtogum þeirra afla. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fyrstu grein af fjórum í greinaflokki sem hún hefur skrifað um ágreininginn innan ASÍ og mun birtast á Kjarnanum. ASÍ undir stjórn Drífu Snædal hafi ekki verið sérstaklega hliðhollt verka- og láglaunafólki, að hennar mati.
Í greininni rekur Sólveig Anna innkomu þeirra sem hún kallar „aðkomufólk“ í forystu verkalýðshreyfingarinnar fyrir nokkrum árum. Þar á hún fyrst og fremst við sjálfa sig, Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness og nú Starfsgreinasambandsins. „Ég og Ragnar mynduðu í upphafi ferils okkar góð tengsl við Vilhjálm, en við þrjú áttum fleira sameiginlegt en að vera aðkomufólk í verkalýðshreyfingunni. Við urðum til dæmis öll fyrir miklum áhrifum af íslenska efnahagshruninu 2008 og beittum okkur í átökunum í kjölfar þess. Einnig áttum við það öll sameiginlegt að hafa aldrei verið handgengin neinum af gömlu vinstriflokkunum tveimur sem í gegnum áratugina hafa haft mest ítök í verkalýðshreyfingunni.“
Þær málefnalegu áherslubreytingar sem hafi fylgt þeim þremur séu, í tilfelli Ragnars Þórs og Vilhjálms, önnur afstaða til fjármálakerfisins, verðtryggingar, húsnæðismála og lífeyriskerfisins. Í hennar tilfelli hafi það verið áhersla á endurvakningu félagslegrar baráttu með þátttöku verkafólks sjálfs, að opna verkalýðshreyfinguna fyrir innflytjendum, höfnun á stéttasamvinnu og krafan um aukin jöfnuð í samfélaginu.
Missir ekki svefn yfir svikum á kjarasamningum
Í greininni segir að eftir undirritun Lífskjarasamningana í apríl 2019 hafi ASÍ tekið að sér það hlutverk að eiga þríhliða viðræður við SA og Félagsmálaráðuneytið um framfylgd á loforði ríkisstjórnarinnar um viðurlög við kjarasamningsbrotum, nánar tiltekið launaþjófnaði. „Sú vinna gekk frá byrjun hægt og illa, og var þar fyrst og fremst um að kenna ósvífni Samtaka atvinnulífsins (SA), en Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA er ekki þekktur fyrir að missa svefn yfir útbreiddum svikum atvinnurekenda á þeim kjarasamningum sem hann gerir fyrir þeirra hönd. Það breytir því ekki að meðhöndlun ASÍ á málinu var óásættanleg.“
Þegar drög að lagabreytingum litu svo ljós í febrúar í fyrra hafi verið ljóst að „sannkallaður óskapnaður“ hafði fæðst. „Frumvarpsdrögin voru gerendavæn í nær öllum atriðum og settu aukna ábyrgð á herðar þolenda. Eins og Efling hefur iðulega gert þegar um er að ræða mikilvæg hagsmunamál félagsfólks var það upplýst um stöðu málsins. Var því greinargerð Eflingar send á fjölmiðla og birt á vef félagsins. Olli þetta mikilli gremju innan ASÍ, Drífa Snædal ásakaði mig um trúnaðarbrest og var Halla Gunnarsdóttir nýráðinn framkvæmdastjóri ASÍ send út af örkinni til að krefjast þess af Viðari Þorsteinssyni að hann tæki greinargerð félagsins um frumvarpsdrögin niður af vef félagsins. Efling hlýddi að sjálfsögðu ekki þessari íhlutun ASÍ í starf félagsins.“
Ekki atlaga að persónu Drífu
Þrátt fyrir þessa stöðu hafi vinna ASÍ og SA, á vettvangi félagsmálaráðuneytisins, við að uppfæra starfskjaralög sem leitt hafi af sér aðra afurð, sem kynnt var fyrir miðstjórn ASÍ í apríl í fyrra. Að mati Sólveigar Önnu fólst engin réttarbót fyrir þolendur launaþjófnaðar í þessum tillögum heldur. „Var athugasemdum Eflingar ítrekað svarað af hálfu Alþýðusambandsins með torskiljanlegum útúrsnúningum og vífilengjum, sem á endanum bentu til þess að hvorki forseti ASÍ né helstu ráðgjafar hennar virtust skilja inntak frumvarpsins sem þau höfðu þó sjálf samið um. Bæði Efling og VR settu hvort í sínu lagi fram afgerandi höfnun á frumvarpsdrögunum og var Drífa beðin þess lengstra orða að í það minnsta láta ráðherra taka út þá grein í frumvarpinu sem fól í sér hið óheillavænlega og rangnefnda févítis-ákvæði, til þess að aftra þeirri fáránlegu stöðu að réttindi fórnarlamba launaþjófnaðar yrðu fyrir atbeina Alþýðusambands Íslands verri en þau þegar eru.“
Á endanum var frumvarpið ekki lagt fram en Sólveig Anna telur að afstaða Drífu og ASÍ til málsins hafi þó ekkert breyst. „Þess í stað hefur Drífa Snædal kosið að útmála alla málefnalega andstöðu við ákvarðanir sambandsins undir hennar forystu, sama hversu vel rökstudd sú andstaða hefur verið, sem einhvers konar atlögu að persónu sinni. Ásakanir Drífu um slíkar atlögur, sagðar koma frá mér, náðu nýjum hæðum í yfirlýsingu hennar vegna afsagnar sinnar í síðustu viku. Ekkert hefur komið fram, hvorki gögn né vitnisburðir, sem styðja það.“
Drífa Snædal sagði af sér sem forseti ASÍ í síðustu viku. Í yfirlýsingu sem hún birti sagði hún að átök innan sambandsins hafi verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. „Þegar við bætast ákvarðanir og áherslur einstakra stéttarfélaga sem fara þvert gegn minni sannfæringu er ljóst að mér er ekki til setunnar boðið.“
Sólveig Anna brást við og sagði uppsögn Drífu tímabæra. Hún hafi sjálf kosið að loka sig inni í blokk með „nánasta samstarfsfólki forvera síns, Gylfa Arnbjörnsonnar, og þeirri stétt sérfræðinga og efri millistéttarfólks sem ræður ríkjum í stofnunum ríkisvaldsins á Íslandi og einnig á skrifstofum Alþýðusambandsins. Uppruni, bakland og stuðningshópar Drífu voru í stofnana-pólitík og í íhaldsarmi verkalýðshreyfingarinnar.“