Tjón af umhverfisraski vegna virkjanaframkvæmda ætti að leiða til útgjalda hjá fjárfestum, sem hægt væri að áætla með hagrænu umhverfismati. Þetta skrifar Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem birtist á föstudaginn.
Í grein sinni fer Sigurður yfir þær athugasemdir sem eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við tilhögun virkjana á Íslandi til að styðja við samkeppni á orkumarkaðnum. Brugðist hefur verið við margar slíkra athugasemda, til dæmis borga orkufyrirtæki skatta eins og önnur fyrirtæki hérlendis, auk þess sem færri skuldir þeirra eru tryggðar með ríkisábyrgð.
Hins vegar hefur ekki verið brugðist við athugasemdum stofnunarinnar um að færa umhverfisáhrif virkjana til gjalda hjá orkufyrirtækjum. Samkvæmt Sigurði er baráttan um umhverfisáhrifin háð í skotgröfum hér á landi, þar sem fólk sé annað hvort með virkjunum eða á móti þeim vegna rasksins sem þær valda.
Gallaðar aðferðir í rammaáætlun
Sigurður gagnrýnir þær aðferðir sem hafa verið notaðar til að meta umhverfisáhrif mögulegra virkjana í rammaáætlun, en þar ræður sérstök einkunnagjöf því hvort raskið sé talið nógu lítið til þess að rétt sé að leyfa framkvæmdir. Sem dæmi um galla slíkrar einkunnargjafar nefnir hann afdrif Urriðafossvirkjunar í Þjórsá, en hún var sett í nýtingaflokk þar sem einkunnagjöfin í rammaáætlun benti til þess að virkjunin hefði lítil umhverfisáhrif.
Hins vegar hafi faghóparnir sem gáfu einkunnina bent á í umsögnun sínum að laxastofninn í ánni hefði sérstöðu á heimsvísu sem endurspeglist ekki í heildareinkuninni, þar sem fiskalíf hefur ekki stórt vægi í henni.
Samkvæmt einkunnargjöfinni er Urriðafossvirkjun sú virkjun sem veldur næstminnstum umhverfisáhrifum af þeim 26 virkjunarkostum sem eru skoðaðar. Hins vegar, samkvæmt faghópnum sem gaf þessa einkunn, gefur einkunnagjöfin „engan veginn rétta mynd af þeim verðmætum sem hér eru í húfi með tilliti til laxastofnsins.“ Því hefur virkjunin verið sett í biðflokk, þar sem lítið traust var á einkunnargjöfinni.
Hagrænt umhverfismat
Hægt væri að koma í veg fyrir slíkt ósamræmi með svokölluðu hagrænu umhverfismati, samkvæmt Sigurði. Í slíku mati séu engin mörk á vægi einstakra þátta, allt fari eftir smekk hvers svaranda.
Hagræna umhverfismatið er byggt á greiðsluvilja fólks til að koma í veg fyrir umhverfisraskið sem virkjuninni fylgir. Hagfræðingarnir Ágúst Arnórsson og Kristín Eiríksdóttir hjá Hagfræðistofnun HÍ útbjuggu slíkt mat fyrir Urriðafossvirkjun með skoðanakönnun fólks sem var á tölvupóstlista Maskínu, en þar var fólk spurt hversu mikið það væri tilbúið að borga meira fyrir rafmagnið sitt í hverjum mánuði til að greiða fyrir verndaraðgerðir gegn áhrifum virkjunarinnar.
Út frá svörum frá þessari skoðanakönnun var hægt að meta hversu mikils virði umhverfisáhrifin af virkjuninni eru í augum hins almenna Íslendings, en samkvæmt þeim niðurstöðum væri áhrifin metin á 30 milljarða króna. Ef virkjanaaðilarnir þyrftu að greiða þessa upphæð til að ráðast í virkjunina myndi heildarkostnaðurinn vegna hennar aukast um 60 prósent.
Sigurður segir það vera eðlilegt að að láta orkufyrirtækin greiða fyrir umhverfisáhrif virkjananna sem þau byggja. Gjaldið gæti svo runnið í ríkissjóð, en einnig mætti dreifa því beint til landsmanna. Samkvæmt honum er slík gjaldtaka mikilvæg, þar sem þá sé endanlega tryggt að raskið hafi áhrif á ákvörðun um framkvæmdina, rétt eins og annar kostnaður við hana.
Hægt er að lesa grein Sigurðar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.