Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina beita bókhaldsblekkingum við kynningu á hækkun barnabóta.
Ríkisstjórnin kynnti í vikunni nokkrar aðgerðir sem hún ætlaði að grípa til sem áttu á liðka fyrir kjarasamningsgerð og hjálpa lág- og millitekjuhópum í samfélaginu. Ein stærsta aðgerðin var kerfisbreyting á barnabótakerfinu.
Í kynningu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, kom fram að heildarfjárhæð barnabóta yrði fimm milljörðum krónum hærri en í óbreyttu kerfi á næstu tveimur árum eftir að breytingin tekur gildi.
„Ég hrósaði ríkisstjórn af þessu tilefni. Nú vil ég draga þetta hrós til baka og lýsa yfir vonbrigðum með framkomu hæstvirts forsætisráðherra í þessu máli,“ sagði Kristrún í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun þar sem hún beindi fyrirspurn sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Á þriðjudagskvöld var birt minnisblað úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu á vef Alþingis sem hafði verið sent til efnahags- og viðskiptanefndar sama dag. Þar birtist önnur mynd af barnabótakerfi næstu tveggja ára en í kynningum ráðherra, en samkvæmt því er gert ráð fyrir 600 milljón króna hækkun barnabóta á næsta ári og 1,4 milljarði króna árið 2024.
Því mun þurfa tvo milljarða króna í auknar fjárheimildir til að fullfjármagna þær breytingar sem ríkisstjórnin kynnti á blaðamannafundi sínum á mánudag, en ekki fimm milljarða króna.
„Það er ekki einu sinni raunaukning á gildistíma kjarasamninganna, engin aukning til barnabóta ef tekið er tillit til verðbólgu. Svona bókhaldsblekkingar draga úr trausti. Og ég vil taka það fram að svona stjórnmál eru mér ekki að skapi,“ sagði Kristrún.
Drógu breytingartillögu um hækkun til baka en leggja hana nú aftur fram
Samfylkingin lagði til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þar sem gert var ráð fyrir aukningu upp á þrjá milljarða króna til barnabóta á árinu 2023 en dró hana til baka þegar ríkisstjórnin kynnti áform sín á mánudag. Kristrún greindi frá því að Samfylkingin hyggst nú leggja þessa breytingartillögu aftur fram við þriðju umræðu fjárlaga í ljósi þess sem fram hefur komið.
Kristrún spurði því næst hvort forsætisráðherra finndist það smekkleg framsetning að boða fimm milljarða króna hækkun barnabóta þegar aukningin er í raun mun minni, bæði miðað við fjármálaáætlun og frumlag til fjárlaga.
„Og getur hæstvirtur forsætisráðherra staðfest hér í dag, fyrir Alþingi og almenningi, að það verður ekki nein raunaukning í framlögum ríkisins til barnabóta á árinu 2023?“
Ekki blekkingarleikur heldur kerfisbreytingar
Katrín sagði það hafa legið fyrir frá upphafi að kostnaður við þessa kerfisbreytingu verður fimm milljörðum hærri á næstu tveimur árum en ella hefði orðið miðað við núverandi fjárhæðir og skerðingarmörk.
„Ég held að það sé mikilvægt að háttvirtur þingmaður tali ekki um einhverjar blekkingar því að þetta hefur legið fyrir,“ sagði Katrín.
Kerfisbreytingar eru það mikilvæga í tillögunni að mati forsætisráðherra, þar sem fjölskyldum sem njóta stuðnings í kerfinu fjölgar um 2.900. En, þar er, að minnsta kosti að góðum hluta, að ræða fjölskyldur sem hefðu verið áfram inni í núverandi kerfi ef skerðingar vegna launa og verðlags hefðu verið uppfærðar miðað við aðstæður í efnahagslífinu.
En Katrín ítrekaði að ekki væri um neinn blekkingarleik að ræða. „Hér er hins vegar um að ræða kerfisbreytingu sem hefur verið kallað eftir, m.a. úr flokki hv. þingmanns, sem er að barnabótakerfið nái til fleiri fjölskyldna en áður.“
Hún sagði það einnig áhugavert að Kristrún fengi sig ekki til að gleðjast yfir því að verið sé að breyta barnabótakerfinu með því að fjölga þeim fjölskyldum sem njóta barnabóta.
Kristrún sagði uppstillingu ríkisstjórnarinnar á hækkun barnabóta ekki eðlilega. „Ef það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að nýta ekki fjárheimildir í barnabótakerfinu, heldur nýta sér skerðingarmörkin eins og þau eru, þá á fólk skilið að fá að vita það.“