Guðrún Johnsen, hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, sem sagði í samtali við RÚV í janúar að hæpið yrði að raunvirði myndi fást fyrir hlut í Íslandsbanka ef hann yrði seldur í ár og að hæpið yrði að heppilegir eigendur fyndust, segist hafa haft á réttu að standa.
Hún segir í stöðuuppfærslu á Facebook að að afslátturinn sem gefin var af raunvirði bankans í nýafstöðnu hlutafjárútboði, þar sem 35 prósent hlutur var seldur og eftirspurn eftir bréfum var níföld, sé 20-50 prósent. „Fjárfestar voru vitanlega kampakátir yfir þessu – það er hverjum manni ljóst, nema auðvitað umtöluðum blaðamanni á Viðskiptablaðinu, að ekki er erfitt að laða 24 þúsund fjárfesta að borðinu þegar búið er að strá á bilinu 12 - 16 milljörðum á það fyrir þá til að grípa, í þessari atrennu. Það kemur ekki á óvart að jafnvel virtir erlendir fjárfestar eins og Capital World Investors, sjá tækifæri í þessu tilboði, sem eiga í viðskiptum fyrir hönd þriðja aðila. Tíminn leiðir svo í ljós hvort þeir eru þess konar fjárfestar, eins og ég tel að séu heppilegir til að taka við af íslenska ríkinu, og munu reynast bankanum góðir bakhjarlar til langs tíma, en ekki einungis tækifærissinnaðir fjárfestar sem hafa meiri áhuga á skammtímahögnunartækifærum en almennum langtíma bankarekstri.“
Guðrún getur þess í stöðuuppfærslunni að hún hafi ekki tekið þátt í ráðgjöf eða ákvörðunum um kaup eða sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka fyrir neinn annan en eigin reikning. „Enda má sæmilega fjármálalæsu fólki vera ljóst að sú ráðgjöf er búin að vera sú sama síðan í janúar 2021: BUY, BUY, BUY! eins og gamalreyndur verðbréfamiðlari myndi segja, enda er ég líka einn slíkur.“
Grátlegt að Ísland eigi ekki betra viðskiptablað
Tilefni skrifa Guðrúnar í dag eru skrif í nafnlausa dálkinn Tý í Viðskiptablaðinu fyrir helgi, þar sem hún var til umfjöllunar. Í pistlinum sagði meðal annars að það veki furðu Týs að „ríkisfjölmiðilinn skuli ítrekað leita til hennar sem fagmanneskju þegar kemur að umfjöllun um viðskipti og efnahagsmál.“
Hún segir að dálkahöfundurinn Týr hafi haft hana beinlínis á heilanum í meira en áratug. „Þráhyggja hans hófst upp á annað stig eftir að ég beindi sjónum þjóðarinnar að niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis um fall og örlög Kaupþings Singer & Friedlander og hvernig vinir Týs, stjórnendurnir þar á bæ, reyndu að slá ryki í augu breska fjármálaeftirlitsins mánuðum á undan falli bankans með blekkingum í lausafjárskýrslum, sem þeir skiluðu til eftirlitsins. FSA tók vitaskuld af þeim bankaleyfið þegar að upp komst um svikin, eins og þeim bar að gera, til að vernda óvarða innistæðueigendur í þeim athyglisverða banka.“
Þetta hafi leitt til þess að Týr hafi ekki látið eitt einasta tækifæri framhjá sér fara í meira en áratug til að draga úr trúverðugleika hennar sem fagmanns, í hvaða trúnaðarstarfi sem hún hafi tekið að sér á tímabilinu. „Ég hef vitaskuld ekki haft mig eftir því að elta ólar við þetta, enda viðbúið að varðhundarnir byrji að gelta þegar óþægilegan sannleika um velgjörðarmenn þeirra ber á góma, sérstaklega þegar þeir geta gert það í skjóli nafnleyndar, jafnvel þótt allir sem taka þátt í viðskiptalífinu viti hver heldur á penna.“
Um leið og ég nýti þetta kærkomna tækifæri til að segja “I told you so, - again!” finnst mér eiginlega grátlegt að...
Posted by Guðrún Johnsen on Monday, June 21, 2021
Níföld eftirspurn
Níföld eftirspurn var eftir bréfum í Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans sem lauk í síðustu viku. Í útboðinu var 35 prósent hlutur í bankanum seldur á 79 krónur á hlut, sem voru efri mörk útboðsverðsins.
Heildarsöluandvirðið er 55,3 milljarðar króna og rennur það að uppistöðu, eftir að búið er að draga frá kostnað vegna útboðsins, í ríkissjóð þar sem íslenska ríkið var eini eigandi bankans fyrir útboðið. Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka miðað við þetta er 158 milljarðar króna, sem er um 81 prósent af bókfærðu eigin fé bankans.
Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Capital World Invsestors og RWC Asset Management höfðu þegar við upphaf útboðsins skuldbundið sig til að kaupa um það bil tíu prósent af öllu útgefnu hlutafé Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans og verða svokallaðir hornsteinsfjárfestar. Tilraunir til að fá erlenda banka til að kaupa stóran hlut í Íslandsbanka, meðal annars norska, hafa ekki borið árangur.
Fjöldi hluthafa í Íslandsbanka verður um 24 þúsund eftir útboðið sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Ríkið mun áfram fara með 65 prósent hlut í honum, aðrir innlendir fjárfestar 24 prósent hlut og erlendir fjárfestar munu eiga um ellefu prósent af heildarhlutafé bankans.