Búast má við því að dánartíðni vegna COVID-19 verði að minnsta kosti helmingi lægri í nýrri bylgju faraldursins hérlendis, þar sem viðkvæmustu hóparnir gagnvart veirunni eru nú þegar bólusettir. Þetta skrifar Eiríkur Ragnarsson hagfræðingur í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Samkvæmt Eiríki hefur bólusetning verið með svipuðu móti hérlendis og í Þýskalandi, þar sem ný bylgja faraldursins hófst fyrir nokkrum vikum síðan. Bæði löndin hafi ákveðið að setja eldri borgara í forgang, en í Þýskalandi er búið að bólusetja um 80 prósent allra þeirra sem eru yfir áttrætt, en það eru um fimm milljónir einstaklinga.
Mikinn mun má sjá á þróun nýrra tilfella þeirra sem eru yfir áttrætt þar í landi, borið saman við aldurshópinn 65 til 79 ára. Á síðasta ári fylgdi smittíðni beggja aldurshópa svo til sömu þróun, en hún tók svo að breytast nokkrum eftir að bólusetning elsta aldurshópsins hófst um síðustu áramót.
Síðan þá hefur smitum fækkað hraðar á meðal þeirra og haldist nokkuð stöðugur á síðustu vikum, þótt smitum á meðal þeirra sem eru á aldrinum 65 til 79 ára hafi aukist töluvert.
Eiríkur segir það mat þýskra sérfræðinga að núverandi bylgja verði verri en sú síðasta vegna tilkomu svokallaða breska afbrigðisins af veirunni. Þrátt fyrir það mætti ætla að helmingi færri myndu missa lífið í henni en ella, þar sem í kringum 70 prósent af öllum dauðsföllum vegna veirunnar hafi átt sér stað í hópi 80 ára og eldri, sem nú eru að miklu leyti bólusettir.
Búast mætti við svipaðri tölfræði hérlendis, þ.e. að vænt mannfall í nýrri bylgju yrði helmingi minna en ef ekki hefði verið fyrir bólusetningu og forgangsröðun eldri borgara í henni, samkvæmt Eiríki.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.