Ef efnahagsviðspyrnan á næstu árum verður slakari en Hagstofan gerir ráð fyrir er ekki ráðlegt að beita jafnströngum aðhaldsaðgerðum og núverandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Þetta kemur fram í álitsgerð fjármálaráðs um áætlunina, sem birtist fyrr í vikunni.
Of mikið aðhald gæti ógnað stöðugleika
Fjármálaráð bendir á fimm grunngildi sem hið opinbera á að byggja áætlanir sínar á; sjálfbærni, stöðugleiki, varfærni, festa og gagnsæi, en að mati ráðsins eru þessi gildi grundvöllur fyrir góða hagstjórn.
Í álitinu stendur þó að þessi gildi geti gengið gegn hvoru öðru, til dæmis gæti of mikil áhersla á sjálfbærni í ríkisfjármálum ógnað stöðugleika í hagkerfinu. Litið sé framhjá þessu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þar sem hún býst við að stöðva hækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu innan fimm ára, hvernig sem gengur í hagkerfinu.
Meira aðhald ef ástandið versnar
Þetta markmið ríkisstjórnarinnar leiðir til þess að hún boðar meiri aðhaldsaðgerðir, sem annað hvort fela í sér skattahækkanir eða niðurskurð á útgjöldum hins opinbera, ef efnahagsástandið verður verra en Hagstofa gerir ráð fyrir á næstu árum.
Kjarninn hefur áður fjallað um þetta, en samkvæmt áætluninni má búast við að umfang skattahækkana og niðurskurðaraðgerða muni nema um 34 milljarða króna á ári á tímabilinu 2023-2025 ef hagspá Hagstofunnar gengur upp. Ef efnahagsástandið verður verra má hins vegar búast við að umfang þeirra nemi allt að 50 milljörðum króna á ári á sama tímabili.
Ný spennitreyja
„Ekki er sjálfgefið að við þær kringumstæður sem sviðsmyndin dregur upp væri ráðlegt að leggja svo þungar byrðar á ríkisreksturinn,“ segir í umsögn fjármálaráðs þegar fjallað er um boðaðar aðhaldsaðgerðir ef hagvöxtur verður undir áætlunum.
Samkvæmt ráðinu þurfa stjórnvöld að meta það hvort mikilvægara sé að stefna að sjálfbærni í tekjuöflun eða stöðugleika með skýrum hætti. Ef markmiði um stöðvun skuldahlutfalls ríkisins innan ákveðins tímaramma er fylgt, óháð efnahagsþróun, segir ráðið að opinber fjármál fari mögulega úr einni „spennitreyju“ í aðra.