Gæðum vísindalegra birtinga frá Landspítalanum og stöðu klínískra heilbrigðisvísinda í Háskóla Íslands hefur hrakað eftir að spítalinn varð að háskólasjúkrahúsi um aldamótin. Á sama tíma hefur ekkert skilgreint fjármagn runnið til að sinna uppbyggingu vísindastarfs og nýsköpunar af hálfu eigenda spítalans. Þetta skrifar Magnús Gottfreðsson, prófessor í læknadeild Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út á föstudaginn.
Stóð vel að vígi um aldamótin
Í grein sinni fer Magnús yfir niðurstöðum greiningar sem norræna stofnunin NordForsk framkvæmdi á framleiðni og gæði rannsókna á Norðurlöndum. Samkvæmt þeim minnkuðu gæði vísindalegra birtinga á Landspítalanum á tímabilinu 1999-2014, en þau voru mæld eftir fjölda tilvitnana sem birtingarnar fengu.
Samkvæmt Magnúsi stóðu spítalarnir þrír sem mynduðu síðan Landspítala vel að vígi í þessum málaflokki undir lok síðustu aldar, en um aldamótin var vísindalegt framlag hins nýsameinaða Landspítala mest í hópi sex háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndunum sem voru til skoðunar. Magnús segir einnig að klínísk heilbrigðisvísindi hafi verið eitt sýnilegasta tromp Háskóla Íslands á erlendum vettvangi, ásamt jarðvísindum.
Í botnsætið á 15 árum
Eftir sameiningu hafi staða Landspítalans hins vegar versnað, en samkvæmt niðurstöðum Nordforsk voru gæði vísindabirtinga þar mun minni en á hinum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndunum sem voru til skoðunar árin 2011-2014.
Magnús bendir á að staða klínískra vísinda innan stærsta samstarfsaðila spítalans, Háskóla Íslands, sé mjög háð því að spítalinn geti risið undir nýsköpunar- og vísindahlutverki sínu. Ef miðað er við alþjóðlega samanburðarlista Times Higher Education á háskólum hefur sú staða versnað til muna innan háskólans á síðustu árum, á meðan gæði annarra fagsviða hafi nokkurn veginn staðið í stað.
„Það tekur langan tíma að byggja upp vísindastarf og nýsköpun, en fjárfesting í þessum málaflokki er skynsamleg ráðstöfun af mörgum ástæðum,“ skrifar Magnús í greininni sinni. „Ekkert skilgreint fjármagn hefur runnið til að sinna þessu lögbundna hlutverki af hálfu eiganda spítalans og samlegðaráhrifin sem urðu til við sameininguna fyrir 20 árum voru tekin út úr starfseminni í stað þess að byggja upp vísindi og nýsköpun,“ bætir hann við.
Hægt er að lesa grein Magnúsar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.