Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að það að leyfa stórum fyrirtækjum, eða fyrirtækjum sem vilja starfa saman, að gera hvað sem er geri það að verkum að þau fyrirtæki komist í aðstöðu til þess að skapa eigendum sínum auð á kostnað viðskiptavina sinna.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Pál Gunnar í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.
Hann segir jafnframt að samkeppnisreglur séu sérstaklega mikilvægar fyrir lítið land eins og Ísland, þvert á það sem opinber umræða gefi til kynna. Eftirlit hafi verið talað niður af þeim sömu og semja reglurnar sem eiga að gilda.
Fyrirtæki hafa auðvitað sinn rétt
Fram kom í fjölmiðlum um miðjan júní síðastliðinn að Eimskip hefði gert sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu 1,5 milljarða króna stjórnvaldssektar vegna alvarlegra brota gegn samkeppnislögum og EES-samningum sem framin voru í samráði við Samskip, aðallega á árunum 2008 til 2013. Sektin er sú stærsta sem nokkurt fyrirtæki á Íslandi hefur greitt vegna samkeppnislagabrota.
Páll segir við Stundina að gagnrýnin vegna samráðs Eimskips og Samskipa sem og annars máls, samkeppnislagabrota Mjólkursamsölunnar, sé birtingarmynd viðhorfs til eftirlits á Íslandi sem þó sé ekki ríkjandi.
„Auðvitað er það bara réttur fyrirtækja að láta reyna á rétt sinn. Við erum með áfrýjunarnefnd samkeppnismála, fyrirtæki geta bæði meðan á málsmeðferð stendur og líka þegar ákvörðun hefur verið tekin, borið niðurstöðuna og málsmeðferðina undir áfrýjunarnefnd eða líka farið með hana fyrir dómstóla og fengið fullnaðar úrlausn. Þetta er bara eðlilegur partur af kerfinu og gerir það að verkum að samkeppniseftirlitið þarf að standa skil á öllum sínum gjörðum. Það er ekkert undan því að kvarta að fyrirtæki bregðist við með þessum hætti,“ segir hann og bætir því við að það sé hins vegar umhugsunarvert þegar fyrirtæki fari í baráttu á vettvangi hagsmunasamtaka og nýti sín hagsmunasamtök í sínu máli. „Þá ertu kominn út fyrir þennan ramma sem lög skipa en er auðvitað bara eitthvað sem er í sjálfsvald fyrirtækja sett.“
Umræða um heilbrigði eftirlits á vettvangi stjórnmála mjög mikilvæg
„Ef þú ert með sterkar reglur og þú ert með stjórnvöld sem horfa til allra hagsmuna, ekki bara hagsmuna þessa hóps, heldur ekki síður til almannahagsmuna og þú ert með eftirlit með reglunum sem dugir, þá er svarið við því nei. Ef að þú ert hins vegar ekki með þetta þá er svarið já, eðli málsins samkvæmt, því þá ertu ekki lengur með samfélagssáttmála um jöfnuð. Þú þarft að vera með leikreglurnar á hreinu og stjórnvöld þurfa að horfa til allra hagsmuna. Ef það er gert þá þarftu ekki að hafa eins miklar áhyggjur af þessu jafnvægi.“
Þetta segir hann þegar hann er spurður hvort orðinn sé til hópur fólks sem hafi of mikið og of mikla hagsmuni sem stangist á við heildarhagsmuni samfélagsins.
Hann segist hafa áhyggjur af þessu jafnvægi í íslensku samfélagi. „Já, ég hef það. Þetta er alltaf spurning um vilja okkar sem samfélags til að setja skýrar reglur og tala fyrir þeim og fylgja þeim eftir. Það dugir ekki bara að setja eftirlitsstofnanir til verka, það þarf líka að styðja við þær. Stjórnvöld þurfa að passa upp á að þessi eftirlit hafi stuðning stjórnvalda til þess að gera það sem til er ætlast. Það má ekki bara hleypa af stokkunum einhverri eftirlitsstofnun og síðan fara að tala gegn henni daginn eftir. Það auðvitað gengur ekki. Að sama skapi er umræða um heilbrigði eftirlits sem á sér stað vettvangi stjórnmála mjög mikilvæg.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á vef Stundarinnar.