Blaðamaðurinn Max Fisher hjá fréttamiðlinum Vox, sakar rannsóknarblaðamanninn Seymour M. Hersh um að hafa smíðað samsæriskenningu um morðið á Osama Bin Laden. Hersh, sem er heimsþekktur blaðamaður og hefur meðal annars hlotið Pulitzer verðlaunin fyrir umfjöllun sína um My Lai fjöldamorðin í Víetnam, skrifar mikla grein sem birtist á vefsíðu The London Review of Books, þar sem hann fullyrðir að morðið á Bin Laden hafi gerst öðruvísi en bandarísk stjórnvöld hafi látið í veðri vaka til þess. Skrif Hersh hafa vakið athygli á heimsvísu, enda um þungavigtar blaðamann að ræða. Kjarninn fjallaði um greinina hans í dag.
Í grein sinni segir Hersh að pakistanski herinn hafi vistað Bin Laden í stofufangelsi í Abbotabad frá árnu 2006, og hafi ekki einungis vitað hvar leiðtoga al-Kaída var að finna heldur sömuleiðis þegið greiðslur frá Sádi-Arabíu vegna uppihalds. Þá hafi Bin Laden sömuleiðis ekki veitt bandarísku sérsveitarmönnunum mótspyrnu, heldur verið drepinn óvopnaður í svefnherberginu sínu. Loks fullyrðir Hersh að illa förnu og sundurlimuðu líki Bin Laden hafi verið kastað út úr þyrlunni sem flutti bandarísku hermennina aftur til Afganistan, í hlutum yfir fjalllendi en ekki í sjóinn eins og hefur verið haldið fram til þessa.
Blaðamaður Vox gagnrýnir skrif Hersh harðlega og segir þau ekki standast skoðun. Greinin, sem sé hinn versta hrákasmíð, sé að mestu leyti byggð á tveimur heimildamönnum, öðrum nafnlausum, innan úr pakistanska hernum, sem hafi látið af störfum fyrir nokkrum árum síðan. Þá vanti í frásögn Hersh haldbærar og trúverðugar sannanir fyrir því sem hann beri á borð með skrifum sínum.
Fisher gefur lítið fyrir kenningar Hersh um að samstarf Bandaríkjanna og Pakistans hafi verið að ræða, enda hafi samskipti þjóðanna kulnað mjög eftir að upp komst um að leiðtogi al-Kaída héldi til í Pakistan, beint fyrir framan nefið á heimamönnum, sem þótti sömuleiðis mjög pínleg staðreynd fyrir þá.
Þá veltir Fisher upp þeirri spurningu, af hverju pakistönsk stjórnvöld skyldu vilja að taka þátt í leikstýrði árás á Bin Laden, með tilheyrandi álitshnekk fyrir þjóðina.