Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Unity, segir mikið hugvit og hreina orkuframleiðslu gera Ísland að álitlegum fjárfestingarkosti. Að hans mati væri hægt að framkvæma tilraunir hérlendis tengdar framtíðarnýtingu á orku, þar sem rafmagnið sé nokkurn veginn búið til án þess að losa kolefni.
Þetta sagði Davíð í ítarlegu viðtali í vorhefti Vísbendingar, sem kom út síðasta föstudag. Í viðtalinu var farið yfir reynslu hans sem frumkvöðuls, árangur hjá Unity og áform hans um að flytja til Íslands og fjárfesta í fyrirtækjum sem vinna að lausnum gegn loftslagsvandanum.
Gat ekki annað gert en að fjárfesta í sprotum
Á síðustu árum hefur Davíð einbeitt sér að fjárfestingum í sprotafyrirtækjum. Aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að gera það segir Davíð það vera bæði vegna reynslu og áhuga. „Ég kann svolítið á að stofna tæknifyrirtæki og hef gaman af ferlinu í kringum það og fólkinu sem stofnar fyrirtækin. Ég gat eiginlega ekki annað en að gera það.“
Þessa stundina vinnur hann svo að stofnun nýs fjárfestingarsjóðs með bróður sínum, Ara Helgasyni, en þeir hyggjast báðir að flytja til Íslands í sumar. Samkvæmt Davíð er margt enn óútfært í þeim efnum, en hann segir þó að áformin séu meira en bara vangaveltur og að meiri upplýsingar muni koma í ljós þegar nær dregur.
Hugvit og hrein orka gera Ísland aðlaðandi
Samkvæmt honum er margt sem gerir Ísland að álitlegum fjárfestingarkosti, þar sem hér sé fullt af hugviti og nóg af fólki að gera áhugaverða hluti. „Það er líka fínn áhugi á fyrirtækjum sem tengjast loftslagsbreytingum og við höfum verið að tala við nokkur þeirra um það,“ bætir hann við.
„Ísland er auðvitað sérstakt land að því leyti að rafmagnið er nokkurn veginn búið til án þess að losa kolefni, svo ég held að landið geti orðið einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina,“ segir hann einnig. Hér sé hægt að prófa hvernig heimurinn verður, þar sem önnur lönd stefna einnig á jafnhreina orkuframleiðslu.
„Ég held að það sé fullt af fólki sem vill koma til Íslands og vinna þar,“ bætir Davíð við og segir að hann og bróðir hans vilji fá gott fólk með sér hingað til lands, bæði Íslendinga og útlendinga, til að vinna í umhverfismálum.
Hægt er að lesa viðtalið við Davíð í heild sinni með því að smella hér.