Landbúnaðarstyrkir virðast hafa lítil eða engin áhrif til örvunar eða viðhalds atvinnu á landsbyggðinni, auk þess sem þeir virðast ekki hafa bætt velferð bænda. Þetta skrifar Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Lág laun þrátt fyrir háa styrki
Í grein sinni fer Þórólfur yfir meðallaun í landbúnaði, en þau námu einungis 200 þúsund krónum á mánuði árið 2019. Samkvæmt Þórólfi endurspegla þessi laun, sem eru undir lágmarkslaunum, lélega framleiðni í greininni, en fleiri vinnustundir eru að baki hverju starfi í landbúnaði heldur en öðrum störfum.
Samkvæmt honum sýna lág laun í landbúnaði að ætlunarverk hins opinbera hafi gjörsamlega mistekist ef markmið þess með landbúnaðarstyrkjum væri að auka og bæta velferð þeirra sem vinna við greinina. Enn fremur bætir hann við að ekki sé hægt að kenna lágum styrkjum um, þar sem þeir séu mjög háir í alþjóðlegu samhengi.
Styrkir sambærilegir útgjöldum í félagsþjónustu
Landbúnaðarstyrkirnir eru misháir eftir sveitarfélögum, en samkvæmt grein Þórólfs fær sveitarfélagið Skagafjörður hæstu styrkina. Á árunum 2014-2019 fékk sveitarfélagið að meðaltali rúman milljarð króna í styrki ár hvert, sem jafngildir því að hið opinbera kosti tæplega 400 störf þar. Til viðmiðunar segir Þórólfur að sveitarfélagið varði 900 milljónum króna í útgjöld í félagsþjónustu og tveimur milljörðum króna í fræðslu og uppeldismál.
„Það má því álykta að hið opinbera leggi 30 aura til aukinnar velferðar kúa og kinda fyrir
hverja krónu sem lögð er til velferðar barna og annarra íbúa sveitarfélagsins. Einhver myndi segja að þar sé nokkuð misskipt og áherslubreytinga þörf,“ segir hann í greininni.
Kemur ekki í veg fyrir fólksfækkun
Þórólfur segir einnig að landbúnaðarstyrkir hafi alls ekki komið í veg fyrir fólksfækkun á landsbyggðinni, til að mynda hafi íbúum í sveitarfélaginu Skagafirði fækkað um 325 milli áranna 1998 og 2019. Þróunin hefur verið svipuð í öðrum sveitarfélögum, sérstaklega ef litið er til íbúa í dreifbýli og segir Þórólfur því að styrkirnir virðast hafa lítil sem engin áhrif til örvunar eða viðhalds atvinnu í bændastéttinni.
Hægt er að lesa grein Þórólfs í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.