Boðað aðhald í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar getur aldrei orðið grundvöllur fyrir stöðugleika á vinnumarkaði eða til að ná markmiðum um velsæld og úrbætur á sviði velferðarmála. Þetta segir Alþýðusamband Íslands (ASÍ) í mánaðaryfirliti samtakanna, sem birtist í dag.
Samkvæmt yfirlitinu er lítill samhljómur á milli fjármálastefnunnar og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem sú fyrrnefnda boðar aukið aðhald til að stöðva vöxt skuldahlutfallsins en sú síðarnefnda boðar betri almannaþjónustu og skattalækkanir.
ASÍ segir líklegt að ríkisstjórnin stefni því að því að auka útgjöld eða lækka skatta ef afkoma verður betri en búist er við vegna betri framvindu í efnahagsmálum. Þessar áherslur eru að mati samtakanna gagnrýniverðar, sér í lagi ef skattar eru lækkaðir í efnahagslegri uppsveiflu þegar jákvæð afkoma skýrist öðru fremur af tekjum sem séu ekki líklegar til að halda til lengri tíma.
Vilja hærri skatta í stað niðurskurðar
Samkvæmt samtökunum hafa skattalækkanir á tímabilinu 2013-2019 þrengt verulega að stöðu ríkissjóðs og fjármögnun samfélagslegra innviða ekki verið tryggð með fullnægjandi hætti.
Í greinargerðinni samhliða fjármálastefnunni kemur þó fram að unnið verði að endurbótum á skattkerfinu þannig að tekjuöflun hins opinbera nægi til þess að standa undir verkefnum þess. ASÍ segir hins vegar að ekki sé ljóst hvað felist í þessum endurbótum, þar sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar boðar bæði eflingu almannaþjónustu og skattalækkun.
Hins vegar benda samtökin á að stórar áskoranir séu framundan í opinberum fjármálum, þar sem búist er við minni hagvexti til langs tíma í framtíðinni, en aukinni útgjaldaþörf.
„Í fjármálastefnu er ekki að finna skýra stefnumörkun um hvernig brugðist verði við þeim stóru áskorunum sem hagkerfið stendur frammi fyrir,“ bætir ASÍ við. „Þvert á móti fæst ekki séð hvernig fjármálastefnan, með veikan tekjugrunn og litlar fjárfestingar stuðli við framleiðnivöxt og mæti útgjaldaþörf vegna öldrunar þjóðar.“