Verðbólga hefur sambærileg áhrif og stiglækkandi skattur, þar sem tekjulægri einstaklingar geta síður varið sig gegn neikvæðum áhrifum hennar. Þetta skrifar Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabanka Íslands, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Lakari verðbólguhorfur
Samkvæmt Rannveigu hafa verðbólguhorfur nýlega versnað, á sama tíma og efnahagshorfur hafa batnað. Eftir því sem verðbólgan hefur reynst þrálátari hafi verðbólguvæntingar á nokkra mælikvarða þokast upp. Með hærri væntingum er líklegra að verðbólgan festist í sessi, þar sem verðákvarðanir fyrirtækja og launakröfur byggjast oft á þeim.
Því hafi peningastefnunefnd bankans ákveðið að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum, en Rannveig segir að mögulega hefði þurft að hækka vexti hærra og hraðar í framtíðinni ef brugðist yrði of seint við þessum vaxandi verðbólguþrýstingi.
Jafnvægislist
Hins vegar bætir Rannveig við að peningastefnan sé jafnvægislist, vextir megi hvorki vera of háir né of lágir. Nauðsynlegt væri að hafa vexti nógu háa til að tryggja að verðbólga leiti að markmiðinu innan ásættanlegs tíma, en jafnframt væri nauðsynlegt að þeir héldust nógu lágir til að veita þjóðarbúinu stuðning á meðan slaki er enn til staðar.
Nýjustu tölur Hagstofu bentu til þess að vöxtur innlendrar eftirspurnar var minni í byrjun árs en Seðlabankinn gerði ráð fyrir og því þyrfti að stíga varlega til jarðar.
Peningastefnan ekki einkamál seðlabankans
Í grein sinni undirstrikaði Rannveig mikilvægi peningastefnu, sem hún sagði að sumir teldu að væri einkamál Seðlabankans. Samkvæmt henni skilar árangursrík peningastefna sér í bættum lífskjörum, ekki síst fyrir atvinnulausa og lægstu tekjuhópana.
„Áhrif mikillar verðbólgu eru sambærileg stiglækkandi skatti að því leyti að þeim mun lægri tekjur þeim mun meiri eru skaðleg áhrif verðbólgu,“ skrifar Rannveig. „Þeir tekjulægri geta síður varið sig gegn neikvæðum áhrifum verðbólgu þar sem laun þeirra eru föst til lengri tíma og sparifé geymt í reiðufé eða á óverðtryggðum bankareikningum.“ Einnig bætir hún við að lítil verðbólga stuðli að meiri stöðugleika í atvinnu, sem eykur möguleika fólks til að tryggja sér tekjur og viðhalda lífskjörum sínum.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.