Samgangur á milli sérhagsmunahópa og stjórnmálamanna hér á landi er mikill og óljós, en reglur hérlendis voru óskýrari en í flestum OECD-ríkjum og öllum Norðurlöndunum árið 2018. Þetta kemur fram í nýrri úttekt OECD á efnahagslífinu hérlendis og í hagtölum frá samtökunum.
Kjarninn fjallaði betur um úttektina í gær, en hún hvetur til sóknar í nýsköpun og grænni framleiðslu hér á landi. Samtökin segja einnig að bæta megi regluverkið hér til muna til að efla samkeppnishæfni landsins.
Í því samhengi nefna skýrsluhöfundar að miklar aðgangshindranir séu fyrir ný fyrirtæki á ýmsum mörkum hérlendis, til dæmis með tilvist starfsleyfa. Þessar hindranir vernda fyrirtækin sem eru nú þegar á markaði og koma í veg fyrir nýsköpun, samkvæmt samtökunum.
OECD bætir einnig við að mikill samgangur á milli stjórnmálastéttarinnar og sérhagsmunahópa, sem sé mögulega ókortlagður hafi neikvæð áhrif á samkeppnishæfni landsins. Að mati skýrsluhöfunda gæti Ísland stuðlað að opnu og samkeppnisvænu umhverfi með því að aðskilja almannahagsmuni og sérhagsmuni með skýrum hætti.
Nýjustu gögn OECD um lög gegn áhrifum hagsmunahópa á stjórnmálamenn eru frá árinu 2018, en samkvæmt þeim var Ísland aftarlega á merinni í þeim efnum. Reglurnar hérlendis voru óskýrastar allra Norðurlanda og óskýrari en í flestum aðildarríkjum samtakanna.
Síðan þá hafa hins vegar verið samþykkt lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í stjórnarráðinu sem innihalda meðal annars reglur um samskipti embættismanna við hagsmunavarða og lögbundinn tíma sem þarf að líða á milli þess sem æðstu stjórnendur ráðuneyta geti unnið sem hagsmunaverðir. Samkvæmt aðsendri grein sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði á Kjarnanum í kjölfar lagasetningarinnar var höfð hliðsjón af leiðbeiningum OECD um opinber heilindi við gerð frumvarpsins, auk ábendinga GRECO, samtaka gegn ríkja og spillingu.