Þrátt fyrir efnahagsáfallið sem útbreiðsla COVID-19 hafði í för með sér í fyrra erum við ekki stödd í kreppu hérlendis, samkvæmt Ásgeiri Brynjari Torfasyni, doktor í fjármálum.
Í grein Ásgeirs Brynjars í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn, fer hann yfir skilgreiningu á kreppu og hvers vegna hugtakið ætti ekki við í núverandi ástandi. Venjulega sé talað um kreppu þegar landsframleiðsla dregst saman tvö ár í röð eða þegar samdrátturinn nemur meira en 10 prósentum á einu ári. Þar sem hvorugt hefur gerst hérlendis eru Íslendingar ekki staddir í kreppu enn.
Samkvæmt Ásgeiri kom aukinn hallarekstur hins opinbera í fyrra í veg fyrir heimskreppu, en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hélt því fram í síðustu viku að samdrátturinn í landsframleiðslu á heimsvísu hefði orðið meiri en 10 prósent í fyrra ef ekki hefði verið fyrir aðgerðir hins opinbera.
Ásgeir segir þó að lykilmáli skipti hvar aðgerðum hins opinbera sé beitt í stað stærðar þeirra í peningum talið og að það eigi að vera meginverkefni stjórnvalda að halda uppi atvinnustiginu. Samkvæmt honum hefur það tekist illa hingað til hérlendis, þar sem landið er í sérflokki bæði hvað varðar aukningu atvinnuleysis og það hversu erfitt hefur reynst að ná því niður á síðustu árum. Þessi þróun er áhyggjuefni að mati Ásgeirs Brynjars, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur nú þegar brugðist við með umfangsmiklum aðgerðum.
Líkleg skýring á mikilli aukningu atvinnuleysis hérlendis er samsetning vinnumarkaðarins og stærð ferðaþjónustunnar í hagkerfinu, segir Ásgeir. Aftur á móti telur hann skorta raunveruleg gögn sem sýni fram á gildi þess að minni hækkun launa muni minnka atvinnuleysið, eins og oft hafi verið haldið fram. Þrátt fyrir að hlutdeild launa í þjóðarframleiðslunni aukist séu tengsl þess við atvinnuleysið óljós.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.