„Eitt af því sem gerir ástfóstur Alþýðusambandsins við Salek-hugmyndafræðina enn undarlegra en ella er að samtök atvinnurekenda hafa æ minni áhuga á slíku samstarfi. Í tíð Gylfa Arnbjörnssonar var mikil heiðríkja í samskiptum atvinnurekenda við hreyfinguna, en atvinnurekendur voru auðvitað hrifnir af baráttulatri verkalýðsforystu og hugmyndafræði um að stéttabarátta borgaði sig ekki. Eftir að Halldór Benjamín Þorbergsson tók við sem framkvæmdastjóri SA árið 2017 hefur þar hins vegar verið innleidd mikil óbilgirnis- og harðlínustefna þar sem öll gömul heiðursmannasamkomulög eru virt að vettugi, og hvert tækifærið er nýtt til að láta reyna á réttindi sem áður var sátt um.“
Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í annarri grein af fjórum um átökin innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem hún birtir um þessar mundir á Kjarnanum. Sá Halldór Benjamín sem hún nefnir er Þorbergsson og hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) frá því síðla árs 2016.
Símtal frá Boga Nils í Drífu breytti stefnunni
Að sögn Sólveigar Onnu er skýrasta dæmið um þessa stefnu, og þróun, það þegar Icelandair Group, fyrrverandi vinnustaður Halldórs Benjamíns, ákvað að segja flugfreyjum upp störfum í miðri kjaradeilu sumarið 2020 með hætti sem hún segir að hafi gengið í berhögg við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. „Tilgangur þessarar aðgerðar, sem SA studdi opinberlega, var augljóslega ekki bara sá að knésetja flugfreyjur heldur að opna á nýja lagaframkvæmd í kjaradeilum sem tæki gildi yfir allan vinnumarkaðinn. Þar er auðvitað í bakgrunninum sár gremja SA yfir árangusríkum verkfallsaðgerðum Eflingarfélaga, nokkuð sem gengur gegn öllum þeim hugmyndum um stéttasamvinnu og afnám verkfallsaðgerða sem höfðu ráðið áratugum saman og atvinnurekendur höfðu skiljanlega bundið miklar vonir við.“
Sólveig Anna segir að þessi afstaða Drífu hafi breyst tveimur vikum síður. „Í stað þess að fylgja málssókninni eftir, og fá staðfestingu á því að uppsagnirnar væri ólöglegar, ákvað ASÍ skyndilega í samráði við Magnús Norðdahl lögfræðing sambandsins að ganga til viðræðna við SA og Icelandair um að fara allt aðra leið. Þar var svo sannarlega „slegið af grunnprinsippum“. Var þessi stefnubreyting gerð í kjölfar þess að Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hringdi í Drífu Snædal. Bogi Nils fékk sínu framgengt hratt og örugglega og skilaði það sér í sameiginlegri yfirlýsingu SA, ASÍ, Flugfreyjufélagsins og Icelandair sem birt var 17. september 2020.“
Umbunað fyrir gróft ásetningsbrot
Með þessari yfirlýsingu hafi ASÍ leyst Icelandair Group og SA alfarið undan hótun um málsókn fyrir Félagsdómi. „Í staðinn lýstu Icelandair og SA því yfir að þau „viðbrögð“ að segja upp flugfreyjum í miðri kjaradeilu væru „hörmuð“ þar sem þau væru „ekki í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa“. Með þessari yfirlýsingu leyfði Alþýðusambandið brotlegu íslensku fyrirtæki í bandalagi við landssamtök atvinnurekenda að uppnefna mikilvægustu lagalegu réttarvernd vinnandi fólks í landinu, lög sem samþykkt voru af Alþingi, „samskiptareglur“.“
Þá hafi hinir brotlegu fengið að ganga frá málinu án afleiðinga. „Reyndar er það ekki rétt að segja að málið hafi verið afleiðingalaust, því Icelandair stóð á þessum tíma í mjög umtöluðu hlutafjárútboði. Tilgangur fyrirtækisins með að sækjast eftir þessari yfirlýsingu var augljóslega sá að ryðja braut fyrir hikstalausa þátttöku lífeyrissjóða í því útboði, sem einmitt varð raunin. Þannig má segja að Alþýðusambandið hafi tryggt afleiðingar fyrir hinn brotlega í málinu - en þó ekki refsingu heldur umbun.“
Því hafi ASÍ ekki einungis leyst gerendur undan öllum afleiðingum af einu grófasta ásetningsbroti gegn íslenskum vinnurétti sem sést hefur á Íslandi áratugum saman heldur opnaði sambandið dyrnar fyrir það að fyrirtækið fengi sérstaka umbun með ríkulegum fjárfestingum úr eftirlaunasjóðum launafólks. „Efling hélt uppi gagnrýnum spurningum um þessa ákvörðun en við þeim fengust aldrei nein málefnaleg svör. Úr varð að stjórn Eflingar samþykki gagnrýni og birti á vef félagsins. Við það sat.“