Óumdeilt er að mikil lækkun vaxta hér á landi jafnt sem erlendis á COVID tímanum jók misskiptingu eigna. „Þegar hlutabréf hækka í verði þá hagnast þeir sem mest eiga af slíkum bréfum. Vaxtalækkun hefur sömuleiðis í för með sér hækkun á verði skuldabréfa bæði ríkis og einkaaðila sem eykur eignir þeirra sem slík bréf eiga. Hækkun húsnæðisverðs kemur sömuleiðis þeim best sem stærstu eignirnar eiga o.s.frv. Og þegar vextir nú hækka og búast má við lækkun eignaverðs þá bitnar vaxtahækkunin mest á þeim sem minnstan höfuðstól hafa, þ.e.a.s. eignaminnsta fólkinu.“
Þetta skrifar Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og ytri meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, í grein sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar. Þar fjallar Gylfi um stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, sem eru til þess fallnar að vinna á aukinni verðbólgu. Gylfi tekur sérstaklega fram að þau viðhorf sem komi fram í greininni endurspegli ekki viðhorf annarra meðlima peningastefnunefndar, sem tekur ákvarðanir um stýrivexti.
Stjórnmálamanna að bregðast við
Gylfi segir að í þessu samhengi, að misskipting eigna hafi aukist á veirutímanum og að vaxtahækkun bitni mest á eignaminnsta fólkinu, verði að hafa í huga að ríkisstjórn og Alþingi hafa lýðræðislegt umboð til þess að leggja á skatta og greiða bætur til ákveðinna þjóðfélagshópa. „Ef að lýðræðislega kjörnum fulltrúum finnst áhrif peningastefnu á tekju- og eignadreifingu vera óæskileg þá er það þeirra að beita sínum stjórntækjum til þess að leiðrétta þessi áhrif. Peningastefnunefnd eða Seðlabankinn hefur ekki umboð til slíkra aðgerða.“
Mikilvægt að friður skapist á vinnumarkaði
Gylfi segir mikilvægt að friður skapist á vinnumarkaði þannig að bæði launafólk og atvinnurekendur verði sáttir við sinn hlut í þjóðarkökunni og verðbólguvandinn magnist ekki frekar. „Þótt launa- og starfslokasamningar forstjóra vegi ekki þungt í þjóðhagslegu samhengi né launakjör helstu ráðamanna, sveitarstjóra eða ráðuneytisstjóra og annarra sem gegna trúnaðarstöðum, þá eru óhófleg launakjör og jafnvel sjálftaka þessara aðila friðarspillir á vinnumarkaði og geta orðið til þess að verðbólga verði erfiðari viðureignar.“
Hægt er að lesa grein Gylfa Zoega í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.