Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, rifjar í grein sem hún ritar í Morgunblaðið í dag upp breytingar sem gerðar voru á kvótakerfinu árið 1990. Hún segir „áhugaverða sögu“ hafa birst áhorfendum Verbúðarinnar sem sýni hversu snúin pólitíkin geti verið.
Í lokaþættinum kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn var andvígur frjálsu framsali veiðiheimilda og skrifar Þorgerður að það hafi komið mörgum á óvart og rifjar í því samhengi upp það ferli sem leiddi til þeirra breytinga á kvótakerfinu sem við búum við í dag.
Fyrstu árin giltu kvótalög til skamms tíma í senn, ýmist í eitt eða tvö ár og að við þær aðstæður var „tómt mál“ að tala um frjálst framsal, skrifar Þorgerður. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi í upphafi borið ábyrgð á þessari lagasetningu en Alþýðubandalagið verið á móti.
„Árið 1990 kom sjávarútvegsráðherra Framsóknar hins vegar fram með frumvarp sem fól í sér varanlega úthlutun aflaheimilda og frjálst framsal þeirra. Þetta var stóra kerfisbreytingin,“ skrifar Þorgerður og heldur áfram: „En þegar hér var komið við sögu sat vinstri stjórn í landinu með aðild Alþýðubandalagsins. Samhliða frumvarpinu um ótímabundna úthlutun kvóta og frjálst framsal lagði stjórnin fram frumvarp um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Hugmyndin með honum var að koma á pólitískri fyrirgreiðslustofnun til þess að halda fyrirtækjum gangandi, sem ekki stóðust almenn rekstrarskilyrði.“
Sjálfstæðisflokkurinn notaði sjóðshugmyndina sem forsendu fyrir því að greiða atkvæði gegn báðum málunum, skrifar Þorgerður. Innan Alþýðubandalagsins hafi áfram verið mikil andstaða og „margir þingmenn flokksins gáfu til kynna að þeir myndu greiða atkvæði gegn breytingunni í samræmi við kosningaloforðin þó að ráðherrarnir verðu afstöðu sína með því að mikilvægara væri fyrir þjóðina að njóta áframhaldandi setu flokksins í ríkisstjórn. Þetta þýddi með öðrum orðum að fórna hugsjónum fyrir ráðherrastóla“.
Málið hafi hins vegar staðið lengi vel í nokkrum þingmönnum Alþýðubandalagsins og því um tíma óvissa um hvort meirihluti yrði fyrir því. Á endanum, skrifar Þorgerður, ákváðu þingmenn Alþýðubandalagsins að „fórna hugsjóninni“ til að tryggja áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. „En sú dýrð stóð bara í fjóra mánuði. Þá komu kosningar.“
Ríkisstjórnarflokkarnir fengu meirihluta en stjórnin fór engu að síður frá og Alþýðubandalagið fór í stjórnarandstöðu þar sem það snerist „um leið“ gegn kerfinu.
Þorgerður rifjar því næst upp stofnun Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og segir andstöðuna við kerfið hafa orðið enn harðari innan hennar. Fyrir kosningarnar árið 2017 var það stefna VG að hækka auðlindagjöld og tímabinda veiðiheimildir. „Undir forystu ráðherranna Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur í núverandi ríkisstjórn hafa þingmenn VG aftur á móti ítrekað fórnað þeim málstað fyrir einhverja aðra hagsmuni sem fæstum eru sýnilegir.“
Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson fórnuðu hugsjóninni í fjóra mánuði fyrir ráðherrastóla, skrifar Þorgerður. „Þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir hafa fórnað hugsjóninni fyrir ráðherrastóla í fjögur ár á síðasta kjörtímabili og lofað í stjórnarsáttmála að gera það í önnur fjögur ár. Þessi pólitík Vinstri grænna er spegilmynd þess sem við höfum fengið að fylgjast með í Verbúðarþáttunum.“