Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, viðskipta og menningar, segir það sína skoðun að heimilt eigi að vera að loka Reynisfjöru sem og öðrum ferðamannastöðum ef svo beri undir. „Ég sem ráðherra málaflokksins horfi auðvitað á heildarhagsmuni hans. Það er ekki gott fyrir heildina þegar það eru orðnir einhverjir stórhættulegir staðir og við gerum ekkert í því,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið í dag. Er hún varð ráðherra ferðamála var það eitt hennar fyrsta verk að skipa starfshóp um Reynisfjöru og hvort það ætti „að loka henni hreinlega.“
Alls hafa tólf alvarleg útköll borist vegna fólks í hættu í Reynisfjöru síðustu sjö árin. Þar af hafa orðið fimm banaslys. Það fimmta varð á föstudag er erlendur ferðamaður á áttræðisaldri lést er alda hreif hann með sér í fjörunni. Eiginkona hans var hætt komin en viðstöddum tókst að bjarga henni.
Lilja segir að til ýmissa ráðstafana hafi verið gripið m.a. að setja upp merkingar en að ferðamenn virði þær margir hverjir að vettugi. Landeigendum og þeim sem hafi afnot af svæðinu hafi ekki tekist að ná utan um málið.
Í Morgunblaðinu kemur ennfremur fram að tillögur að frekari úrbótum sem höfðu verið fjármagnaðar hafi ekki orðið að veruleika vegna mótmæla nokkurra landeigenda. Aðrir landeigendur hafi hins vegar beitt sér fyrir auknu öryggi.
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg sagði við Vísi árið 2017 er þýsk kona fórst í Reynisfjöru og barn á leikskólaaldri var hætt komið að vandamálið fælist í því að enginn ábyrgðaraðili væri á staðnum. Nefndi hann nokkur atriði til úrbóta sem væru notuð víða um heim, m.a. svokallaða handstýringu; skilti, stíga og girðingar sem og það sem hann kallaði „beina stjórnun“ með lögum, reglugerðum, löggæslu og landvörslu. „Á þessum stöðum á auðvitað að vera landvarsla og virkari löggæsla. Þannig að bæði landvörður og lögregla komi á þessa staði á svona degi og eru með sitt áhættumat og leggja mat á hvort aðstæður séu erfiðar og hvort þurfi að setja upp borða sem segir að enginn fari neðar en ákveðið viðmið. Svo þarf landvörður að vera á staðnum til að fylgja þessu eftir.“