Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi, segir að ríkissjóður muni taka til sín 73 prósent af þeirri eingreiðslu sem sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna munu fá síðar í mánuðinum vegna tíu prósent aukningar á réttindum þeirra.
Sjóðurinn tilkynnti í morgun að stjórn hans hefði ákveðið að hækka áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins um tíu prósent, sem leiði til samsvarandi hækkunar lífeyrisgreiðslna. Hækkunin miðast við síðastliðin áramót og er tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna undanfarin ár sem hefur styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Meðalraunávöxtun eigna síðustu 10 ára er 6,7 prósent, síðustu 20 ára 4,5 prósent og síðustu 30 ára 5,4 prósent.
Stefán segir í stöðuuppfærslu á Facebook að eingreiðslan, sem er líkt og áður sagði 76 þúsund krónur að meðaltali á sjóðsfélaga, muni glögglega sýna virkni lífeyriskerfisins, því þá taki við skerðingar hjá TR og skattgreiðsla til ríkisins af þessari uppbót.
Ríkið muni þannig, samkvæmt útreikningum Stefáns, taka til sín 55.700 krónur af þessum 76.000 krónum „þannig að sjóðfélagi sem er ellilífeyrisþegi fær í vasann rétt rúmar 20.300 krónur af þessum 76.000 krónum sem hann hefur áunnið sér aukalega í lífeyrissjóði. Þar er miðað við sjóðfélaga sem hefur að jafnaði 200.000 krónur úr lífeyrissjóði á mánuði.
Þetta segir Stefán að sýni „svart á hvítu hvernig ríkið leyfir fólki ekki að njóta þess ávinnings sem það hefur af skyldusparnaðinum í lífeyrissjóðum, heldur tekur um 73 prósent af því í lækkun útgjalda vegna almannatrygginga (TR) og í tekjuskatt. Skerðingar nema 43.244 krónum og tekjuskattur 12.430, eða samtals 55.674.“
Lífeyriskerfið í beinni! Í morgun var tilkynnt að Lífeyrissjóður verslunarmanna ætli að auka réttindi sjóðfélaga um 10%,...
Posted by Stefán Ólafsson on Thursday, November 4, 2021