Ekki verður hægt að vinna bug að skuldastöðu ríkissjóðs nema atvinnuleysinu verði náð niður að mati Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar. Þetta sagði Logi í óundirbúnum fyrirspurnatíma í þinginu í dag en hann beindi fyrirspurn sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Logi gaf lítið fyrir nýbirta fjármálaætlun en samkvæmt henni verða á árinu fimm þúsund fleiri einstaklingar atvinnulausir heldur en gert var ráð fyrir í síðustu fjármálaáætlun sem samþykkt var fyrir jól.
„Í kynningunni skautar ríkisstjórnin svo algjörlega fram hjá því að það er gert ráð fyrir fimm prósenta atvinnuleysi í lok tímabilsins, árið 2023. Það er fimmtíu milljarða kostnaður fyrir ríkissjóð á hverju ári og sá kostnaður mun haldast um ókomna tíð ef ekki verður ráðist að rót vandans, sem er fjöldaatvinnuleysið,“ sagði Logi.
Logi vakti í kjölfarið athygli á orðanotkun í fjármálaáætluninni en þar er sagt að ef svartsýnustu spár ganga eftir þá verði gripið til „afkomubætandi“ ráðstafana. „Á skýrari íslensku heitir það niðurskurður eða skattahækkanir eða hvort tveggja. Það er ekkert sérlega geðsleg pólitísk sýn sem felst í því að sætta sig við áframhaldandi atvinnuleysi en hóta svo með ótilgreindum niðurskurðartillögum í lok tímabilsins til þess eins að ná einhverju sérstöku óskaskuldahlutfalli,“ sagði Logi og bætti við að skuldastaðan væri afleiðing atvinnuástandsins.
Segir aðgerðir ríkisstjórnar hafa minnkað samdrátt
Katrín sagði ríkisstjórnina hafa beitt sér til þess að milda höggið á efnahagslífið í kjölfar kórónuveirufaraldursins. „Ríkisstjórnin hefur frá fyrsta degi beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum. Það eru pólitískar ákvarðanir, pólitískar ákvarðanir sem til að mynda snúast um að leggja áherslu á að halda skólum opnum þannig að atvinnulífið gæti haldið áfram að ganga sinn gang eins og mögulegt var, þannig að ekki félli aukin byrði á konur umfram karla út af heimsfaraldri, pólitískar ákvarðanir sem felast í því að kynna til sögunnar bæði hlutastarfaleið, lokunarstyrki tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki, hækkun atvinnuleysisbóta og svo mætti lengi telja. Aðgerðir sem hafa skilað því að samdrátturinn er minni en áður var spáð.“
Einkaneysla hafi þó að vegið að einhverju leyti upp á móti þeirri erfiðu stöðu sem upp er komin og hún dregið úr samdrætti að sögn Katrínar. Hún sagði ríkisstjórnina hafa beitt sér fyrir því að fólk hafi getað haldið ráðningarsambandi með hlutastarfaleiðinni en nú stæði til að draga úr langtímaatvinnuleysi með nýjum aðgerðum undir yfirskriftinni „Hefjum störf.“
„Það er risastórt verkefni sem mun skipta verulegu máli til að draga úr langtímaatvinnuleysi, koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn því það er samfélagslegt böl ef hér verður áfram langtímaatvinnuleysi,“ sagði Katrín undir lok fyrri ræðu sinnar.
Verið sé að „sætta sig við langtímaatvinnuleysi“
Logi steig í pontu öðru sinni og sagði aðgerðirnar ekki nógu miklar. „Þær aðgerðir sem gripið er til, þær eru ekki nógu miklar og það er verið að sætta sig við langtímaatvinnuleysi hér í landi,“ sagði hann.
Þá sagði Logi efnahagssamdráttinn bitna fyrst og fremst á konum, ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Hann sagði fjórðung launafólks eiga í vanda með að láta enda ná saman og helmingur atvinnulausra. Hann spurði Katrínu loks hvort hún deildi þeirri sýn með fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að sjálfbærni ríkisbúskapar snúist um tiltekna skuldastöðu til skamms tíma frekar en að ná niður atvinnuleysi „og skapa örugga atvinnu fyrir fólk og minnka ójöfnuð í þessu landi.“
Atvinnuleysi ógni jöfnuði
Katrín sagði að það væri ótímabært að tala um hvaða áhrif kórónukreppan hefði haft á stöðu jafnaðar hér á landi en að hann hafi verið mestur í Evrópu fyrir heimsfaraldur. Mesta hættan fyrir jöfnuð stafi hins vegar af langtímaatvinnuleysi og því hafi aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúist um að tryggja ráðningarsamband fólks, tryggja afkomu þessu og að tryggja að hér séu sköpuð fleiri störf að sögn Katrínar.
„Við munum sjá núna aukningu Í fjárfestingu ríkisins, það hefur töluvert verið rætt um opinbera fjárfestingu og hlut ríkis og hlut sveitarfélaga í henni, þar sem við erum líka að skapa störf,“ sagði Katrín.