Þorbjörg Sigríður Gunnardóttir, þinmaður Viðreisnar, segir Bjarna Benedikstsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefja viðræður um málefni ÍL-sjóðs með hótun af hálfu ríkisstjórnainnar með því að segja að ef eigendur bréfa í sjóðnum gangi ekki til samninga við ráðherra muni hann beita lagasetningu til að setja sjóðinn í þrot.
Þorbjörg, auk Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, beindu fyrirspurnum sínum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og spurðu hana hvort hún sé sammála þeirri leið sem fjármála- og efnahagsráðherra vill fara í málum ÍL-sjóðs og hvort hún hafi verið með í þeim ráðum.
„Nú stendur almenningur frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann eigi að borga í gegnum lífeyrissjóðina sína eða ríkissjóðinn sinn fyrir hagstjórnarmistök Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í byrjun aldarinnar,“ sagði Logi á Alþingi í morgun þegar hann beindi fyrirspurn sinni að forsætisráðherra.
Telur hagsmuni skattgreiðenda og lífeyrisþegar geta farið saman
Katrín sagði málið vissulegu hafa verið rætt í ríkisstjórn og sagði hún mikilvægt að ræða skýrsluna um málefni ÍL-sjóð, sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í síðustu viku, á þinginu. „Það er kannski það sem mér finnst mikilvægast í þessu máli, það skiptir máli að vanda til verka því að þetta eru miklir hagsmunir,“ sagði Katrín.
Forsætisráðherra sagði hóp kröfuhafa fjölbreyttan, þó lífeyrissjóðir væru vissulega stærsti hluti þeirra. Telur hún að vel verði haldið á málum geti hagsmunir skattgreiðenda og lífeyrisþega farið saman við lausn málsins. „Með því einmitt að haga þessu uppgjöri tímanlega þýðir það ekki sjálfkrafa tap lífeyrissjóðanna heldur hafa þeir tækifæri til þess að ná fram viðunandi ávöxtun á þá fjármuni sem þarna um ræðir. Þetta eru nú helstu sérfræðingar okkar í því að ávaxta eignir sínar.“
Katrín sagði ábyrgð stjórnvalda mikla. „Við erum auðvitað að tala um mikla fjármuni sem munu annars, að öllu óbreyttu, ef ekkert verður gert, falla á komandi kynslóðir.“
Sanngjarnt að ellilífeyrisþegar borgi fyrir ævintýri óreiðustjórnmálamanna?
Logi spurði í framhaldinu hvort forsætisráðherra finnist það sanngjarnt að ellilífeyrisþegar þurfi að borga fyrir „ævintýri óreiðustjórnmálamanna“?
Katrín sagði að gera megi væntingar um að samkomulag náist um uppgjör og í framhaldinu hafi lífeyrissjóðirnir færi á að ávaxta fé sitt þannig að til þess þurfi ekki að koma að þetta bitni á ellilífeyrisþegum. „En ég trúi ekki öðru en að háttvirtur þingmaður sé sammála mér um það að ef ekkert er að gert þá fellur þessi reikningur á komandi kynslóðir og ég vil ekki að við hér sem sitjum á Alþingi nú berum ábyrgð á þeim reikningi,“ sagði forsætisráðherra.
Þorbjörg Sigríður gagnrýndi framsetningu fjármála- og efnahagsráðherra á málum ÍL-sjóðs fyrir helgi og sagði að í henni hafi falist hótun, að ef eigendur bréfanna ganga ekki til samninga við fjármálaráðherra þá muni hann beita lagasetningu til að setja sjóðinn í þrot.
„Þá er stóra spurningin: Í hvaða samningsstöðu eru menn í viðræðum sem hefjast með hótun af hálfu ríkisstjórnar Íslands?“ sagði Þorbjörg Sigríður, sem spurði í kjölfarið forsætisráðherra hvort henni hugnaðist þessi aðferðafræði, að hefja samningaviðræður með beinum hótunum af hálfu ríkisstjórnar Íslands?
Enginn góður valkostur í stöðunni
Katrín sagðist ekki geta litið á málið sem hótun. Nokkrir valkostir eru í stöðunni að hennar mati, en enginn þeirra er góður.
„Hér hefur verið rætt að það sé æskilegt að við getum hafið samtal við eigendur bréfanna um að ná mögulega einhverju samkomulagi. Það fyndist mér eðlilegt fyrsta skref í þessum málum.“
Þorbjörg Sigríður sagði engin svör heyrast um afstöðu Vinstri grænna um hvernig eigi að leysa málið. „Tveir flokkar eiga þetta klúður skuldlaust, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, en eins og venjulega er það forsætisráðherra sem situr uppi með höfuðverkinn og hún er ekki öfundsverð af því.“
„Ég hef engar skýringar heyrt á því hvers vegna ekki var hægt að hefja samtal við samningsaðila án þess að blása fyrst í herlúðra, án þess að beita hótunum, án þess að stilla upp við vegg,“ sagði Þorbjörg Sigríður.