Auka þarf fjárveitingar til almennrar löggæslu að mati Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. „Enda hefur lögreglumönnum fækkað mikið þrátt fyrir aukin og flóknari verkefni,“ sagði Helga Vala í þinginu í dag en hún gerði löggæslu að umfjöllunarefni sínu í ræðu sinni í umræðum um störf þingsins.
„Ríkisstjórnin hefur sofnað á verðinum þegar kemur að því að tryggja öryggi borgaranna og berjast gegn skipulögðum glæpum. Er það í besta falli kæruleysi en í versta falli afglöp ríkisstjórnarinnar. Þetta varðar mannslíf, herra forseti, öryggi borgaranna og heilbrigt samfélag,“ sagði Helga Vala en hún hafði áður bent á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segði að öflug löggæsla væri ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt.
Helga Vala vísaði í Kompásþátt Vísis sem fjallaði um manndrápið í Rauðagerði. „Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir þar aðspurður að lögreglan hafi að sjálfsögðu viljað vakta ferðir einstaklings sem grunaður var um að bera skammbyssu með hljóðdeyfi, en að lögreglu skorti hvort tveggja mannafla og tíma til að geta sinnt slíkum verkefnum. Maður ferðast sem sagt um landið vopnaður skammbyssu með hljóðdeyfi með vitneskju lögreglu sem getur ekki aðhafst vegna fjárskorts,“ sagði Helga Vala.
Hún skoraði á ríkisstjórnina að bregðast við áður en það yrði um seinan.
Margt verið gert til að stemma stigu við glæpastarfsemi
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fulla ástæðu til taka undir viðvörunarorð Helgu Völu í ræðu sinni undir sama dagskrárlið. Hann sagði það vera rétt sem komið hefði fram hjá lögregluyfirvöldum að skipulögð glæpastarfsemi væri vaxandi vandamál.
„Hins vegar held ég að rétt sé að halda því til haga að ríkisstjórnin hefur ekki, eins og háttvirtur þingmaður lét í veðri vaka, setið aðgerðalaus og látið þessa þróun eiga sér stað án þess að bregðast við með einhverjum hætti. Það er langt því frá,“ sagði Birgir í kjölfarið.
Hann sagði að fjallað hefði verið um þessi mál á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar. Farið hafi verið í sérstakt átak til að auka samvinnu lögregluembætta auk þess sem auknu fjármagni hafi verið varið í rannsóknir á þessu sviði. Í þriðja lagi hefðu verið gerðar ýmsar breytingar á löggjöf á þessu sviði.
„Hér hafa verið lagabreytingar sem hafa falið í sér breytingar sem varða peningaþvætti, vinnslu persónuupplýsinga í löggæsluskyni, framsal sakamanna. Við hér í þinginu erum með breytingu á lögreglulögum sem meðal annars á að svara þörf að þessu leyti. Við erum að breyta Schengen-reglum til að auðvelda okkur að nýta upplýsingakerfi í þessu skyni og svo má lengi telja,“ sagði Birgir